Hokkístelpur í Helsinki
31.07.2017
Nú hafa 14 íslenskar hokkístelpur á aldrinum 13-18 ára lokið keppni á alþjóðlegu móti „Legendary Selects“ sem fram fór í Helsinki dagana 25.-29.júlí. Þessi kvennahokkílið eru svokölluð Selects lið sem eru skipuð leikmönnum sem koma frá ólíkum hokkíliðum víðsvegar að en stelpurnar eru valdar til þátttöku á mótinu.
Þátttökuliðin voru Ísland, Selects Norður Ameríka, sem er blandað lið skipað leikmönnum frá Bandaríkjunum og Kanada, Selects Finnland/Rússland og að lokum Selects Evrópa sem er blandað lið frá Evrópu en að mestu skipað leikmönnum frá Svíþjóð.
Íslenska liðið var að mestu skipað leikmönnum frá Skautafélagi Akureyrar en einnig leikmönnum frá SR og Birninum, tveir íslenskir leikmenn komu erlendis frá, frá Noregi og Kanada.