Sarah Smiley er íshokkíkona ársins. Sarah hefur spilað með og þjálfað kvennalið Skautafélags Akureyrar, sem hefur orðið íslandsmeistari í íshokkí undanfarin fimm ár Á síðasta tímabili var Sarah meðal stiga- og markahæstu leikmönnum liðsins.
Sarah er þjálfari hjá Skautafélagi Akureyrar en hefur einnig verið þjálfari kvennalandsliðsins í íshokkíi undanfarin ár, starfað í Kvennanefnd ÍHÍ og var fyrr á þessu ári tilnefnd Umsjónarmaður kvennastarfs á vegum Íshokkísambands Íslands. Sarah leiddi íslenska liðið til sigurs á síðasta heimsmeistaramóti og vakti sá góði árangur íslenska liðsins athygli í alþjóða íshokkísamfélaginu. Sara Smiley hefur komið að fjölda verkefna tengdum íshokkí á Íslandi á undanförnum árum allt frá yngri flokka starfi upp í að skipuleggja stærsta kvennamót sem haldið hefur verið á Íslandi í október sl. en í mótinu tóku þátt níu kvennalið.
Starf landsliðsþjálfara og nefndarstörf á vegum ÍHÍ eru ólaunuð störf en Sarah hefur unnið mikið og gott starf af áhuga og ósérhlífni. Það er ljóst að aðkoma hennar hefur haft mikla þýðingu fyrir góðan vöxt og viðgang íshokkís kvenna á Íslandi. Sarah hlaut fyrr á þessu ári íslenskan ríkisborgararétt og mun því spila með landsliðinu á heimsmeistaramóti í mars nk og er því ekki séð fyrir endann á hennar áhrifum á íshokkí á Íslandi.