Segja má að íslenskir íshokkíleikmenn geri víðreist en rúmlega tugur leikmanna mun æfa og leika með liðum erlendis á komandi tímabili. Þó svo að íshokkí á Íslandi láti aðeins á sjá þegar annars eins fjöldi hverfur af ísnum þarf enginn að efast um að til lengri tíma mun þetta koma íþróttinni til góða.
Stæðsti hópurinn mun leika í Kaupmannahöfn með liði Amager. Fyrstan ber þar að nefna Jónas Breki Magnússon sem leikið hefur í Danmörku undanfarin ár. Jónas Breki er reyndar þessa stundina staddur í Víetnam vegna vinnu en mun fljótlega hefja æfingar með liði Amager. Jón Benedikt Gíslason hafði svo vistaskipti frá SA og stuttu síðar bættust þrír Bjarnarmenn í hópinn en það eru þeir Róbert Freyr Pálsson, Gunnar Guðmundsson og Úlfar Jón Andrésson. Fjórði Bjarnarmaðurinn var þar fyrir en það er Brynjar Freyr Þórðarson. Einnig hefur heyrst af því að Daði Örn Heimisson sé að æfa með Amager liðinu svo íslendingahópurinn þar er orðinn ansi stór. Einn leikmaður enn hyggst leika í Danmörku þennan veturinn, nánar tiltekið í Álaborg, þar er á ferðinni Bjarnarmaðurinn Arnar Bragi Ingason.
Þrír íslendingar leika síðan í Svíþjóð þetta tímabilið. Varnarmaðurinn Ingólfur Tryggvi Elíasson úr SA hefur undanfarið æft með Mjölby. Með því liði leikur einnig íslenski landsliðsmaðurinn Emil Alengard. Ingólfur hefur þegar leikið æfingaleik með liðinu og komst ágætlega frá honum. Pétur Maack sem lék með SR á síðasta tímabili hefur fært sig yfir til Svíþjóðar. Pétur kemur til með að leika með OSBY í Svíþjóð en Pétur hefur áður leikið í Svíþjóð og þá með Mörrum Gois. Einn íslendingurinn enn leikur í Svíþjóð á þessu tímabili en það er Bjarnarmarkmaðurinn Snorri Sigurbergsson. Snorri bjó á sínum yngri árum í Svíþjóð og kannast vel við sig þar en hann mun leika með liði sem heitir Mölndal hockey stars.
Jóhann Már Leifsson leikmaður SA mun hinsvegar halda í vesturátt og leik með unglingaliði er nefnist Niagra Fury og staðsett er í Ontario í Kanada.
Að síðustu ber að nefna að Kári Guðlaugsson sem leikið hefur með SR-ingum undanfarin ár. Kári, sem ásamt Ingólfi Tryggva og Jóhanni Má, lék með U18 ára landliði Íslands síðasta keppnistímabili mun þetta árið leika með Luven en það lið kemur frá Belgíu. Annar unglingalandsliðsmaður mun síðan leika í Noregi næstu ár en það er Ólafur Árni Ólafsson fyrrum leikmaður úr Birninum en hann mun leika með Lörenskog.
Einnig má geta þess að varnarmaðurinn Vilhelm Már Bjarnason úr Birninum hefur hafið nám við sérhæfðan íshokkííþróttaháskóla í Vierumaki og vonandi getum við sagt meira frá því síðar.
Mynd: Ómar Þór Edvardsson
HH