Úrskurður aganefndar 15.11.2007

Aganefnd ÍHÍ
 Símafundur haldinn fimmtudaginn 15. Nóvember 2007 klukkan 20:00.

Mættir voru:
Viðar Garðarsson,
Kristján Maack, Sigurður Sveinmarsson
og varamennirnir Ólafur Sæmundsson og Sigurður Sveinn Sigurðsson

Þetta er 1. fundur aganefndar frá því að hún var skipuð.

Fyrir voru teknar atvikaskýrslur úr leik SA og Bjarnarins í öðrum aldursflokki karla sem leikinn var á Akureyri 10. Nóvember síðastliðinn.

Áður en úrskurður var kveðinn upp viku varamenn fundi.

Aganefnd 2007-2008, mál 1.


Fyrir var tekin  leikskýrsla úr leik SA og Bjarnarins í öðrum flokki karla 10. nóvember 2007 og atvikaskýrslur dómara úr sama leik.
Leikmaður Bjarnarins nr. 42, Gunnar Guðmundsson fær brottvísun úr leiknum GM og síðan leikdóm MP fyrir að mótmæla dómara og að hafa í hótunum við hann. Samkvæmt reglum skal hver leikmaður sem fær leikdóm (MP) fá eins leiks leikbann hið minnsta.

Úrskurður Aganefndar:
Leikmaður Bjarnarins nr. 42, Gunnar Guðmundsson er hér með úrskurðaður í eins leiks bann í öðrum flokki karla. Brottvísun úr leik GM skráist á leikmanninn.


Aganefnd 2007-2008, mál 2.

Fyrir var tekin leikskýrsla úr leik SA og Bjarnarins í öðrum flokki karla 10. nóvember 2007 og atvikaskýrsla dómara úr sama leik. Á tímanum 54:57 gékk lið Bjarnarins af velli. Aganefnd hafði til hliðsjónar í þessu máli úrskurð aganefndar 2005-02-11 Mál nr. 01, Þá kom upp samskonar atvik í fyrsta sinn og því er sá dómur hafður til viðmiðunar, einnig er rétt að geta þess að nú er sérstakt ákvæði í reglugerð um aganefnd sem tekur utan um mál sem þetta. Í ljósi þessa telur aganefndin að lið Bjarnarins hafi gerst brotlegt með því að yfirgefa leikvöllinn. Í úrskurði aganefndar frá 2005 segir Þar sem ekkert fordæmi er fyrir svona atviki þykir ekki rétt að dæma félagið í harða refsingu heldur nota þetta mál sem fordæmi og um leið tilkynningu um að framvegis verði tekið mun harðar á þessum málum.

Úrskurður Aganefndar:
Í ljósi þess sem að ofan er rakið þykir rétt að úrskurða sem hér segir. Lið Bjarnarins hefur gerst brotlegt með því yfirgefa leikvöllinn áður en leik lauk og er því hér með gert að greiða í sekt kr. 75.000 ,- Leikurinn dæmist tapaður fyrir Björninn 10-0.

Aganefnd 2007-2008, mál 3.

Fyrir var tekin leikskýrsla úr leik SA og Bjarnarins í öðrum flokki karla 10. nóvember 2007 og atvikaskýrsla dómara úr sama leik.
 Þjálfari Bjarnarins Jukka Iso Anttilla hafði í hótunum við leikmann. Samkvæmt atvikaskýrslu hafði þjálfari Bjarnarins í mjög óheppilegum hótunum við einn leikmann SA og voru dómarar leiksins vitni af því. Aganefnd vill undirstrika að þjálfarar liða eru, og eiga að vera fyrirmyndir annarra hvað varðar háttvísi og virðingu gagnvart íþróttinni og þeim sem í kringum hana starfa. Sér til málsbóta hefur þjálfarinn beðið hlutaðeigandi afsökunar og ber að virða það.

Úrskurður Aganefndar: Þjálfari Bjarnarins Jukka Iso Antilla er úrskurðaður í tveggja leikja bann í öðrum aldursflokki karla.

Varðandi önnur atriði er upp komu í kringum leikinn vill aganefnd ítreka enn og aftur skoðun sína á aðstöðu í skautahöllunum og umgjörð leikjanna, en í því felst að hafa næga gæslu og eftirlit í áhorfendastúkunum. Drykkjuskapur og skrílslæti eiga ekki að líðast meðal áhorfenda. Á síðasta ári ályktaði stjórn ÍHÍ eftirfarandi: Að gefnu tilefni vill stjórn Íshokkísambands Íslands koma eftirfarandi á framfæri við aðildarfélög sín. Að undanförnu hefur borið á því að einstaka áhorfandi á íshokkíleikjum hefur ráðist með grófu orðbragði að starfsmönnum leikja og/eða leikmönnum liða og farið langt yfir þau mörk sem eðlileg geta talist. Áhorfendur, sumir hverjir barnungir, og starfsmenn liða hafa of oft þurft að hlutsta á orðbragð sem er ekki sæmandi fullorðnu fólki. Stjórn ÍHÍ telur að þetta sé mjög ámælisvert og íþróttinni alls ekki til framdráttar. Stjórn ÍHÍ beinir því til aðildarfélaga sinna að gæsla á leikjum félaganna verði aukin. Þeim áhorfendum er haga sér með þessum hætti verði gefin aðvörun um að háttalag þeirra verði ekki liðið, dugi það ekki til verði þeim sem slíkt háttalag sýna vísað úr húsi.

Aganefnd ÍHÍ vill ítreka þessa ályktun og hvetja aðildarfélög til þess að taka á í þessum málum svo ekki þurfi að koma til afskipta aganefndar en hún hefur heimild til þess að beita félög fjársektum fyrir framkomu áhangenda samkvæmt reglugerð.

Reykjavík 15.11.2007

Viðar Garðarsson Kristján Maack Sigurður Sveinmarsson