Aganefnd var kölluð til fundar 13. desember klukkan 14:00. Nefndin var fullskipuð ásamt einum varamanni. Eftirfarandi mál voru tekin fyrir sem öll komu upp í leik Esju og SR sem leikin var 10. desember síðastliðinn í Skautahöllinni í Laugardal.
Mál 1
Aganefnd bárust kvörtunarbréf frá bæði stjórn UMFK Esju og starfsfólki Esju á umræddum leik. Ákveðnir leikmenn SR höfðu í hótunum við starfsfólk leiksins í enda hans, með hótunum um barsmíðar úti á bílaplani eftir leik.
Aganefnd telur ljóst að mál þetta er tvíþætt. Bæði stóð UMFK Esja sig ekki í að manna leikinn og voru veruleg vanhöld á bæði skýrslugerð og upplýsingum í rafrænu skráningarkerfi. Leiknum var ekki streymt eða gerð af honum upptaka. Þetta er verulega ámælisvert og félagið verður að leggja meiri metnað í þennan hluta starfsemi sinnar.
Hinn hluti þessa máls snýr að framkomu leikmanna SR gagnvart því starfsfólki sem þarna var að reyna að gera sitt besta, reynslulítið við erfiðar aðstæður. Hvort það er ástæða þessa yfirgangs sem starfsmenn leiksins urðu fyrir er ekki víst. Hitt er ljóst að starfsmenn leiks á hverjum tíma hafa sömu stöðu og dómarar leiksins. Hótanir eða hverskonar yfirgangur í garð starfsmanna leiksins verður ekki liðin af aganefndinni.
Úrskurður: UMFK Esja er sektað um 25000 krónur fyrir ófullnægjandi mönnun á viðkomandi leik.
Leikmaður SR númer 12 Viktor Svavarsson er úrskurðaður í 1 leikja bann vegna framkomu sinnar gagnvart starfsmönnum leiksins.
Samkvæmt upplýsingum sem bárust eftir fund aganefndar hefur leikmaður SR #12 Viktor Svavarsson sent formlega afsökunarbeiðni til forráðamanna Esju og er hann maður að meiri fyrir það.
Mál 2
Á tímanum 14:23 fær leikmaður Esju #15, Patrik Pdsencieck á leikskýrslu 5 mínútna dóm fyrir kylfustungu. Í dómaraskýrslu sem barst síðar skrifar dómari að um Leikdóm (MP) hafi verið að ræða. Í þeim tilfellum þegar um misræmi er að ræða milli leikskýrslu og dómaraskýrslu er það ávallt leikskýrslan sem ræður. Aganefnd ætlaði sér að skoða atvikið á myndbandi til þess að ákvarða hvort rétt væri að þyngja þann úrskurð sem leikskýrslan innifelur. Þá kom í ljós að Esja sem heimalið hafði ekki uppfyllt skyldur sínar um upptökur.
Aganefnd reyndi þá að fá afrit af myndbandi sem Björninn tók upp í viðkomandi leik en fulltrúi félagsins hefur neitað að afhenda myndbandið.
Úrskurður: Brot leikmanns Esju #15, Patrik Pdsencieck færist til bókar og við aðra brottvísun úr leik fær leikmaðurinn bann.
Mál 3
Á tímanum 53:30 fær leikmaður SR #7 Robbie Sigurðsson Leikdóm (MP) fyrir slagsmál. Leikmaðurinn hafði síðan frammi óviðeigandi talsmáta við aðstoðardómara leiksins.
Úrskurður: Leikmaður SR #7, Robbie Sigurðsson fær samtals tvo leiki í bann. Einn leik fyrir slagsmálin og annan fyrir orðfærið í garð dómara.
Fh. Aganefndar
Konráð Gylfason
Framkvæmdastjóri ÍHÍ
Viðauki við mál 3.
Aganefnd ÍHÍ barst athugasemd frá Skautafélagi Reykjavíkur vegna orðalags í rökstuðningi með dómi Aganefndar sem birtur var 13. desember síðastliðinn.
Eftir að aganefnd leitaði sér ráðgjafar löglærðra aðila hefur nefndin á fundi sínum 2. febrúar 2017, ákveðið að breyta orðalagi í rökstuðningi með úrskurði sínum.
Aganefnd Íshokkísambands Íslands vill biðja Robbie Sigurðsson og Skautafélag Reykjvíkur innilegrar afsökunar á upphaflegu orðalagi því sem birtist í upphaflegum rökstuðningi, en því hefur nú verið breytt.
Nefndin vill þakka stjórn Skautafélags Reykjavíkur fyrir málefnalega og vel rökstuddar athugasemdir sínar.
F.h. Aganefndar
Viðar Garðarsson
formaður