Handbók Íshokkísambands Íslands (ÍHÍ) 2024 uppfærsla Starfsmenn leiks

Starfsmenn

Ritari:

Hlutverk ritara leiksins er að sjá um uppsetningu leikskýrslu fyrir leik og sjá til þess að hún sé undirrituð af þjálfurum liðanna nokkru áður en leikur hefst. Á meðan leik stendur ritar ritari mörk, refsingar og annað það sem í skýrslunni á að vera, ritari ber einnig ábyrgð á að dómari séu rétt skráðir upp á stigatöfluna, hann þarf að tilkynna til dómara ef villa er í skráðum tíma á stigatöflu og réttum tíma leiksins. Ritari þarf einnig að sjá til þess að allar leiðréttingar sem dómarinn óskar eftir séu framkvæmdar, hann þarf að láta dómara vita ef einhver fær annan Misconduct (10mín) dóm í sama leiknum og að láta dómarann vita ef einhver tekur þátt í leiknum sem er ekki á samþykktri leikskýrslu. Að loknum leik sér ritari til þess að dómari undirriti skýrsluna þannig að leiknum sé lokað, þá þarf hann að sjá til þess að afrit af leikskýrslunni berist skrifstofu ÍHÍ og að dómarinn fái með sér afrit af skýrslunni óski hann eftir því. Ritari þarf einnig að láta dómarann vita ef leikmaður sé ekki á leikskýrslu áður en leikur hefst eftir stopp. Starfsmaður sem sinnir hlutverki ritara þarf að hafa náð 18 ára aldri.

Tímavörður:

Hlutverk tímavarðar er að setja upp klukkuna og hafa hana tilbúna þegar upphitun hefst. Tímavörður skal einnig sjá til þess að liðum sé tilkynnt þegar 1 mínúta er í upphitun. Að sama skapi skal hann láta tilkynna liðum með fyrirvara um upphaf hverrar lotu. Tímavörður skal sjá til þess að skeiðklukka sé til staðar ef aðalklukka bilar. Tímavörður skal tilkynna ritara ef klukkan gekk of lengi eða var sett af stað of seint. Ritari sér svo um að koma upplýsingunum til dómara í næsta stoppi. Starfsmaður sem sinnir hlutverki tímavarðar þarf að hafa náð 18 ára aldri.

Markadómarar:

Í upphafi hvers leikhluta eiga markadómarar að fylgjast með þeim aðaldómara sem sér um dómarauppkastið. Þegar hann biður um það þá eiga þeir að staðfesta að þeir og búnaður þeirra sé tilbúin með því að kveikja á rauða ljósinu. Hlutverk markadómara er að fylgjast með hvort pökkurinn fari yfir markalínu á því marki sem þeir sitja við og bera ábyrgð á. Ef það gerist kveikja þeir á rauða ljósinu og láta það lýsa þar til aðaldómari hefur örugglega gefið merki annaðhvort mark eða ekki mark. Þeir eiga líka að skrá niður fjölda skota á mark, pökkurinn verður þá að hafa stefnt inn í markið áður en markmaðurinn eða einhver annar leikmaður nær að stöðva hann. Ekki telst með ef pökkurinn stefnir á stangirnar eða utan við þær. Ef aðaldómari óskar eftir því að tala við markadómara þá á hann að gera það og svara eingöngu spurningum dómara í stuttu máli. Við lok hvers leikhluta á markadómari að skil inn upplýsingum um skot á mark til ritara. Starfsmaður sem sinnir hlutverki markadómara þarf að hafa náð 18 ára aldri.

Hliðarverðir.

Hliðarverðir sjá um að opna og loka refsiboxum þegar við á, þ.e. þegar refsing leikmanns hefst og lýkur (gæta skal sérstaklega að því að refsibox sé opnað þegar refsiklukkan sýnir 0). Hliðarverðir skulu einnig sjá til þess að mörk séu boruð niður fyrir leik og færð fyrir heflun. Hliðaverðir skulu láta leikmanni í té upplýsingar um hversu langt er eftir af refsingu hans óski leikmaður eftir því og láta ritara vita ef leikmaður fer of snemma úr refsiboxinu.

Kynnir:

Kynnirinn sér til þess að tilkynningar séu fluttar í hátalarakerfi hússins:

1. Hver skorar mark og hverjir eiga stoðsendingar.

2. Refsingar.

3. Lok refsinga.

4. Þegar ein mínúta er eftir af fyrsta og öðrum leikhluta.

5. Þegar tvær mínútur eru eftir af þriðja leikhluta

Leikskýrsla:

Leikskýrslan þarf ekki að vera afgerandi um það hvort leikmaður telst löglegur með liði eður ei. Ef leikmaður er á leikmannalista en ekki á leikskýrslu er dómara heimilt að leyfa leikmanninum að halda áfram leik þar sem augljóst er að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Starfsmaður sem sinnir hlutverki ritara þarf að hafa náð 18 ára aldri.