Stjórn Íshokkísambands Íslands (ÍHÍ) harmar mjög það atvik sem átti sér stað eftir leik Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur í Toppdeild karla um nýliðna helgi.
Stjórn ÍHÍ fordæmir ofbeldi af öllu tagi hvort sem um er að ræða líkamlegt eða andlegt ofbeldi, sem og hvers kyns orðræðu sem beinist gegn kyni, kynþætti, kynhneigð, trúarbrögðum eða húðlit. Stjórn ÍHÍ hafa borist tvö erindi varðandi atvik sem áttu sér stað í og eftir umræddan leik og hefur þeim verið vísað áfram til aganefndar ÍHÍ.
Stjórn ÍHÍ vill benda öllum þeim sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða telja sig hafa beitt ofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar að hafa samband við Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, https://www.samskiptaradgjafi.is/