10.03.2011
Hokkíveislan heldur áfram þar sem nú strax í kjölfar úrslitakeppni karla hefst úrslitakeppnin í kvennaflokki. Í vetur tóku fjögur lið þátt í Íslandsmótinu, Skautafélag Reykjavíkur, Björninn, Valkyrjur og Ynjur en þau tvö síðarnefndu koma bæði frá Skautafélagi Akureyrar. SA-Valkyrjur urðu deildarmeistarar með 30 stig, Björninn var í öðru sæti með 23 stig, SA-ynjur urðu í 3. sæti með 13 stig og nýliðar Skautafélags Reykjavíkur ráku lestina með 6 stig. Samkvæmt venju halda efstu tvö liðin áfram í úrslitakeppnina þar sem barist er um Íslandsmeistaratitilinn og að þessu sinni er úrslitakeppni kvenna jafn löng og hjá körlunum, þ.e. nú þarf að vinna þrjá leiki.
Þrátt fyrir sjö stiga mun eftir 12 leiki í deildarkeppninni er jafnræði með liðunum og inn í úrslitakeppnina koma liðin jöfn og það sem gerst hefur fram að henni skiptir litlu máli, nema ef vera skildi heimaleikjarétturinn sem deildarmeistaratitilinn gefur. Gera má ráð fyrir spennandi keppni þar sem ekkert verður gefið eftir og allt verður lagt í sölurnar til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn 2011.
Fyrsti leikur fer fram á Akureyri komandi laugardag og hefst leikurinn kl. 16:00. Dagskrá keppninnar má sjá hér fyrir neðan og nú er um að gera fyrir alla hokkíunnendur að fjölmenna á úrslitakeppnina og sjá skemmtilegt hokkí þar sem allar bestu hliðar íþróttarinnar fá að njóta sín.
1. leikur
Skautahöllin Akureyri laugardag kl. 16.00
2. leikur
Egilshöllin Reykjavík mánudag kl. 19.30
3. leikur
Skautahöllin Akureyri miðvikudag kl. 19.00
4. leikur ef með þarf
Egilshöllin Reykjavík föstudag kl. 19.30
5. leikur ef með þarf
Skautahöllin Akureyri sunnudag kl. 17.00
Mynd: Elvar Freyr Pálsson