10.04.2010
Á morgun sunnudag hefst úrslitakeppnin í kvennaflokki. Þar mætast lið Bjarnarins og SA og fer fyrsti leikurinn fram í Egilshöll og hefst klukkan 14.00. Eins og þeir sem fylgjast með vita hafa konurnar í vetur spilað í þriggja liða deildarkeppni þar sem Björninn hefur teflt fram einu liði en SA tveimur, þ.e. yngra og eldra liði. Þegar deildarkeppninni er lokið sameinast liðin hjá SA og spila þannig gegn liði Bjarnarins.
Þar sem lið Bjarnarins var í efsta sætinu eftir deildarkeppnina fær liðið heimaleikjaréttinn en það lið sem verður fyrst til að vinna tvo leiki hampar Íslandsmeistaratitlinum. Leikið verður annan hvern dag þangað til úrslit fást og næsti leikur fer því fram á Akureyri á nk. þriðjudag.
Ástæða er til að hvetja stuðningsmenn liðanna til að mæta og hvetja sín lið því kvennahokkíið verður betra og betra með hverjum deginum.
Myndina tók Sigurgeir Haraldsson
HH