Á morgun þriðjudag, hefst úrslitakeppnin í meistaraflokki karla í íshokkí. Að þessu sinni leika SA og Björninn til úrslita og fer fyrsti leikurinn fram í Skautahöllinni á Akureyri og hefst klukkan 19.30. Það lið sem verður á undan að vinna þrjá leiki verður krýnt íslandsmeistari. Leikið verður annan hvern dag þangað til úrslit fást.
Liðin léku sex leiki í deildarkeppninni sem er nýlokið og unnu norðanmenn fjóra þeirra en Bjarnarmenn tvo. Svo jafnir voru leikirnir að engum þeirra lauk með meira en eins mark sigri annars liðsins.
Björninn er núverandi íslandsmeistari en liðið vann á síðasta tímabili sinn fyrsta íslandsmeistaratitil í sögu félagsins. Norðanmenn í Skautafélagi Akureyrar hafa öllu meiri reynslu því liðið hefur unnið titilinn fimmtán sinnum en alls hefur verið leikið um titilinn tuttuguogeinu sinni.
Annar leikurinn í úrslitakeppninni verður síðan leikinn fimmdaginn næstkomandi og fer hann fram í Egilshöll og hefst klukkan 19.00.
Mynd: Sigurgeir Haraldsson
HH