13.03.2006
Um helgina fóru fram tveir leikir hjá meistaraflokki í Íslandsmótinu. Í Egilshöllinni mættust Bjarnarmenn og Narfi frá Hrísey. Narfi kom þar skemmtilega á óvart og lagði Björninn að velli með 6 mörkum gegn 3 í leik þar sem fyrirfram var reiknað með sigri heimamanna. Þetta var fyrsti sigur Narfa í vetur, en þeir náðu í sínum fyrsta leik í vetur einu stigi gegn SA.
Leik SR og SA lauk með sömu markatölu þ.e.a.s. 6-3 en þá voru það heimamenn í SR sem báru sigur úr býtum. Leikurinn var jafnari er marktatölur gefa til kynna því allt var í járnum vel fram í 3. lotu en þá sigu SR-ingar framúr. Báðir leikir helgarinnar höfðu litla þýðingu því nú þegar er ljóst hvaða lið munu mætast í úrslitum. Nú er aðeins einn leikur eftir í undankeppninni en það er leikur á milli Narfa og SA sem frestað var á dögunum. Hlé verður nú á keppni í meistaraflokki þar sem U18 ára landslið Íslands er farið utan til keppni á Heimsmeistaramótinu en úrslitakeppnin hefst svo í byrjun apríl.