Húkk og dífa

Sæll Viðar,   Á hvað var verið að dæma þegar Clark var kominn í break away og var húkkaður niður??? Hann var sendur útaf fyrir leikaraskap þegar allir héldu að það ætti að dæma víti!! Þar sem þú sást þetta eins og fleiri (þar á meðal ég) þá óska ég eftir því að þú komir með útlistun á þessu fyrir mig og aðra sem eru á sömu skoðun að það hafi átt að dæma víti.   Virðingarfyllst Davíð Björnsson   Sæll Davíð   Fyrir það fyrsta þá mun ég ekki taka afstöðu í einstaka málum heldur reyna að fjalla um þessi mál á hlutlausan hátt.

Fyrst hvenær á að dæma víti og hvenær ekki? Það sem að mestu ræður er:

Ø              1. Gegnumbrot skal skilgreina svona: Aðstaða þar sem leikmaður með fulla stjórn á pekkinum hefur engan mótherja á milli sín og markmanns eða marksins ef markmaðurinn hefur farið af svelli.
 
Ø              2. Fulla stjórn á pekkinum þýðir að verið er að rekja pökkinn með kylfunni, ef pökkurinn er snertur af öðrum leikmanni eða útbúnaði hans þegar verið er að rekja hann þannig að hann rati í mark eða verði frjáls, skal leikmaðurinn ekki lengur teljast með fulla stjórn á pekkinum.
 
Ø              3. Aðaldómari skal ekki stöðva leikinn fyrr enn sóknarliðið hefur misst yfirráð á pekkinum.
 
Ø              4. Staðsetning á pekkinum er lykilatriði þegar ákveðið er með vítaskot eða mark, pökkurinn verður að vera algerlega fyrir utan bláu varnarlínuna til þess að hægt sé að dæma vítaskot eða mark.
 
Ø              5. Tilgangur þessarar reglu er að bæta fyrir glatað marktækifæri, sem hefur glatast vegna brots aftan frá.


Þannig er þetta nú þ.e. hvað er það sem að dómarinn er að skoða áður en hann tekur ákvörðun um hvort tilefni sé til þess að úthluta vítaskoti.  Heilt yfir eru Íslenskir dómarar frekar sparir á vítaskotin og grípa ekki til þeirra nema engin vafi leiki á að skilgreiningin hér að ofan eigi við og er ég persónulega sammála því að menn útdeili þeim gæðum með varúð.

Nú leikaraskap könnumst við öll við og sjáum hann því miður allt og oft ekki bara í okkar íþótt heldur í öllum íþróttum. og fyrir leikaraskap á að gefa viðkomandi leikmanni 2 mínútna brottvísun fyrir óíþróttamannslega hegðun. Það er staðreynd sem að við höfum öll orðið vitni að að leikaraskapur er leiðinda blettur á íþróttum sem að dómarar eiga hiklaust að dæma á, telji þeir að viðkomandi leikmaður sé með leikaraskap sínum að reyna að fá andstæðing dæmdan til refsingar.   Svona að lokum þá langar mig aðeins að benda á að dómarar sjá oft hlutina frá öðru sjónarhorni heldur en áhorfandinn uppi í stúku. Í fyrsta lagi sjá dómarar ekki allt sem gerist á svellinu og það sem að þeir persónulega sjá ekki, geta þeir ekki dæmt á. Staðsetning dómara hefur mikið að segja því að sami hluturinn getur litið út fyrir að vera sakleysislegur frá einu sjónarhorni og verið svo mjög gasalegur frá því öðru. Dómgæsla er ekki einföld og á augabragði þarf dómarinn að taka erfiða ákvörðun byggða eingöngu á því sem að hann sér og upplifir, hann þarf að muna og vita á hvaða reglu hann byggir mat sitt á og iðulega hefur hann nokkra möguleika í refsingavali sínu eftir því hvaða brot var um að ræða og fyrir alla stærri dóma þurfa dómarar að skrifa dómaraskýrslu til aganefndar þar sem að þeir lýsa brotinu og skýra á hvaða reglum og hefðum dómurinn er byggður.

Gera dómarar mistök? Já að sjálfsögðu gera dómarar mistök en með opinni og einlægri umræðu fækkum við þeim smátt og smátt. Fullyrðingar og sleggjudómar brjóta hinsvegar bara niður það sem verið er að byggja upp og eru engum til góðs.   Jæja félagi, (við Dabbi vorum vinnufélagar þegar við vorum ungir og myndarlegir nú erum við bara myndarlegir)  þú hefðir nú sjálfsagt viljað frekar að ég feldi einhvern persónulegan dóm um það atvik sem að þú spyrð um hér að ofan. En ég ætla að standa við það sem lagt var upp með að taka ekki afstöðu í einstaka málum heldur að reyna að horfa á hvert mál frá sem flestum sjónarhornum og upplýsa um það hvað reglubækurnar okkar segja.   Kveðja.   VG