11.12.2004
Aganefnd ÍHÍ
Símafundur haldinn föstudaginn 3. desember 2004.
Mættir voru: Bjarni Kr. Grímsson, Kristján Maack og Jón Heiðar Rúnarsson
Aganefnd 2004-12-04, mál 3.
Fyrir var tekin leikskýrsla úr leik SA og Bjarnarins í meistaraflokki karla sunnudaginn 28. nóvember 2004 og atvikaskýrsla dómara úr sama leik og atvikaskýrslu eftir þennan sama leik.
Samkvæmt skýrslu dómara fær leikmaður Bjarnarins nr. 10, Jón E. Ágústsson leikdóm (MP) á 34. mínútu og því sjálfkrafa brottvísun úr leik fyrir endastungu (buttending). Leikskýrslu og dómaraskýrslu ber ekki saman og verður að úrskurða að undirrituð leikskýrsla er það sem ræður. Á henni er ekki skráður leikdómur og því er ekki fjallað frekar um þetta tilvik hjá aganefnd, en lögð er áhersla á að ritari og dómari vandi frágang skýrslna í framtíðinni þannig að komast megi hjá svona tilvikum.
Á 45. mínútu var dómari að tilkynna dóm í refsiboxið og var þá var við að liðsmenn úr þriðja flokki Bjarnarins voru að hrækja á leikmann SA sem var kominn í refsiboxið. Er slík framkoma algerlega óásættanleg af leikmönnum sem eru í formlegu ferðalagi íþróttafélags og staddir á leik í Íslandsmóti í íþróttagrein sinni. Þá er með óllu óásættanlegt að aðbúnaður og umgjörð leiksins sé þannig að áhorfendur geti náð til leikmanna með þessum hætti.
Síðari skýrsla dómara fjallar um tilvik sem á sér stað eftir að formlegum leik lýkur og beinist að leikmönnum beggja liða. Vegna atvika utanhúss sér einn leikmaður SA nr. 30, Michal Kobezda ástæðu til að snúa til baka að búninsklefa Bjarnarins og hefja slagsmál við þann leikmann Bjarnarins sem þar varð fyrir þ.e. nr. 39 hjá Birninum, Hrólur m. Gíslason, en sá leikmaður hafði ekki tekið þátt í leiknum vegna leikdóms frá fyrri leik. Hóf leikmaður SA nr. 30 slagsmál við leikmann nr. 39, hjá Birninum og blönduðu sér inn í þau slagsmál annars vegar leikmaður SA nr. 21, Tibor Tatar svo og leikmaður nr. 5, hjá Birninum, Guðmundur B. Ingólfsson. Starfsmenn leiksins ásamt dómara og eftirlitsdómara urðu að skarka leikinn og skilja menn að.
Aganefnd lítur mjög alvarlegum augum að leikmenn liða skulu ekki vera meiri íþróttamenn en það, að atvik í leikjum skuli ekki einangruð við leikinn sjálfan, heldur brjótast út í persónulegum ílldeilum utan leiks. Liggur beinast við að hugað sé að leikbanni út tímabilið. Þar sem sambærilegt tilvik hefur ekki átt sér stað áður í tengslum við leik er þó ekki talið rétt að beita að fullu slíkum refsingum. Hins vegar skal tekið fram að komi sambærilegt atvik fyrir aftur, hvort heldur þessi tvö lið eiga þar hlutdeild eða ekki verður beitt mun harðari refsingum. Í þessu ákveðna tilfelli er talið rétt að nota sömu reglur og ef atvikið hefði átt sér stað í leiknum sjálfum.
Með vísan til að samkvæmt reglum ÍHÍ og IIHF hefur aganefnd heimild til að þyngja refsingu fyrir hvert það atvik sem að getið er í leikskýrslu og innifelur Brottvísun úr leik eða þyngri refsingu. Samkvæmt reglum skal hver leikmaður sem fær leikdóm (MP) fá eins leiks leikbann hið minnsta. Þau tilmæli hafa hinsvegar verið frá stjórn ÍHÍ að leikdómi fyrir slagsmál fylgi tveggja leikja bann. Telur aganefndin að hér sé full ástæða til að beita þessu ákvæði.
Jafnframt telur aganefnd ástæðu til að félögin sem eiga umrædda leikmenn standi ábyrg á bakvið sína leikmenn og þykir því eðlilegt með tilvísun til reglu nr. 510 um viðbótarrefsingar að félögin þ.e. SA og Björninn verði sektuð annars vegar vegna framkomu leikmanna bæði eftir leik og líka leikmanna í formlegu ferðalagi á vegum íþróttafélags. Svo og hins vegar vegna umgjarðar leiksins þ.e. að ekki er næg gæsla við refsiboxin þannig að hægt er að trufla leikmenn svo og að leikmenn liða geta rokið saman eftir að leik lýkur. Bent er á að eðlilegt er að mótanefnd taki út alla aðstöðu í skautahöllum og geri tillögur til stjórnar ÍHÍ sem setji sem fyrst nánari reglur um gæslu og aðbúnað á leikjum í íshokkí.
Úrskurður Aganefndar
Leikmaður SA nr. 30, Michal Kobezda er hér með úrskurðaður í tveggja leikja bann í meistaraflokki karla.
Leikmaður Bjarnarins nr. 5, Guðmundur B. Ingólfsson er hér með úrskurðaður í tveggja leikja bann í meistaraflokki karla.
Leikmaður SA nr. 21, Tibor Tatar er hér með úrskurðaður í tveggja leikja bann í meistaraflokki karla.
Félögin Björninn og SA er hvort um sig sektað um kr. 20.000,- vegna óíþróttamannslegrar framkomu liðsmanna sinna.
Reykjavík 5. desember 2004
Aganefnd ÍHÍ
Bjarni Kr. Grímsson, Kristján Maack, Jón Heiðar Rúnarsson