Eftir nokkuð langt hlé á skrifum undir þessum lið hef ég ákveðið að svara nokkrum spurningum sem til mín hefur verið beint síðustu vikur og daga. Enn og aftur með það að leiðarljósi að upplýsa um reglur og túlkanir sem gilda en ekki til þess að ræða einstök mál.
Ég var spurður af því um daginn hvernig þetta væri eiginlega með of margir leikmenn á ís. Hversvegna við værum að sjá svona aukningu í þessum dómum, og hvernig reglurnar væru varðandi þetta atriði.
Fyrst reglan sem gildir um skiptingar, hún er svona:
Skiptingar skulu fara fram innan 3ja metra svæðisins við leikmannabekk. Leikmaður sem kemur af leikmannabekk má ekki blanda sér í leikinn fyrr en sá sem er á leið út er komin a.m.k. með annan fótinn á ramman eða í hurðina. Ef það gerist skal liðinu refsað fyrir of margir leikmenn á ís. Fari leikmaðurinn sem kemur af leikmannabekk út fyrir 3 metra skiptisvæðið áður en leikmaðurinn sem er á leiðinni út er komin út af svelli eru það of margir leikmenn á ís og liðinu skal refsað í samræmi við það.
Á þessari reglu eru engar undanþágur eða túlkanir sem dómarar geta gripið til. Þetta er reglan og eftir henni verða línumennirnir okkar að fara. Því að það er þeirra hlutverk að fylgjast með þessu frekar en aðaldómarans jafnvel þó að hann geti einnig dæmt þennan dóm.
Við höfum séð þetta nokkuð oft það sem af er þessu tímabili. Af einhverjum undarlegum ástæðum hafa leikmenn staðið í þeirri trú að þeir mættu skauta inn á svellið eins og þeim hentaði svo fremi að þeir blönduð sér ekki í leikinn. Þess vegna er mikilvægt að árétta þetta aftur nú en skrifstofa ÍHÍ í samvinnu við dómaranefndina birti hér á heimasíðunni þessa reglu 21. október síðastliðinn,
sjá hér.
Þannig til að þetta sé alveg skýrt. Leikmaður á leið inn í leikinn má ekki fara út fyrir 3 metra radíus eða blanda sér í leikinn á nokkurn hátt fyrr en skiptimaðurinn sem er að fara út af svellinu er komin alveg útaf.
Til gamans má svo geta þess að Alþjóða Íshokkísambandið IIHF hefur ákveðið að frá og með næsta keppnistímabili að minnka skiptisvæðið um helming úr 3 metrum niður í 1,5 meter.
Varðandi það af hverju við sjáum svona fjölgun í þessum dómum held ég að fari saman tvö atriði. Annarsvegar þessi misskilningur leikmanna sem ég minntist á hér að ofan og svo líka að línumennirnir eru komnir með umtalsverða reynslu og eiga því auðveldara með að sjá þetta.
Kv. VG