Úrskurður aganefndar 14.10.2008

Aganefnd ÍHÍ kom saman til fundar þriðjudaginn 14. október 2008. Á dagskrá nefndarinnar var annarsvegar að fjalla almennt um hvaða refsiramma nefndin ætlaði að beita á tímabilinu og  hvort ástæða væri til að gera einstaka áherslubreytingar í úrskurðum nefndarinnar og hinsvegar var farið yfir fyrirlyggjandi atvikaskýrslur. Eftir töluverðar umræður komst aganefnd að þeirri niðurstöðu að gera eina grundvallar breytingu. Hún er sú að leikmenn sem eru að taka út refsingar í einum aldursflokki geta ekki leikið með öðrum aldursflokkum á meðan þeir eru að taka út leikbann sitt. Aganefnd mun því eftir sem áður dæma menn í leikbann í þeim flokki sem leikmaðurinn braut af sér með, en einnig munu leikmenn verða dæmdir í allsherjar leikbann í öllum flokkum á meðan frumbrotið er fullnustað. Á þetta við hvort sem leikmenn hljóta leikdóm (Match Penalty (MP)) eða safna tveimur brottvísunum úr leik (Game Misconduct (GM)).
 
Tekin er fyrir atvikaskýrsla úr leik Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur í meistaraflokki karla sem fram fór í Egilshöll 07.10.2008 Þar sem veist var að dómara leiksins. 
Samkvæmt reglum ÍHÍ og IIHF felur leikdómur (MP) í sér eins leiks bann en nefndinni er heimilt að þyngja refsingu með viðeigandi hætti í samræmi við alvarleika brotsins hverju sinni.  Sem fyrr er aganenfd algjörlega samstíga um að beita þá leikmenn sem veitast að dómara harðari refsingum en almennt er. Að teknu tilliti til þess sem áður hefur verið sagt varðandi það að úrskurðir aganefndar í dag eru allsherjar keppnisbann þar til refsing hefur verið fullnustuð í þeim flokki sem brotið var framið í, úrskurðar aganefnd, leikmann Skautafélags Reykjavíkur nr. 20, Ragnar Kristjánsson í þriggja leikja bann frá leikjum í meistaraflokki karla. Á meðan bannið er í gildi hefur leikmaðurinn ekki heimild til að leika með öðrum aldursflokkum á Íslandsmótinu í íshokkí.
Úrskurður: Ragnar Kristjánsson leikmaður Skautafélags Reykjavíkur er úrskurðaður í þriggja leikja bann í mfl. karla og á meðan bannið gildir er Ragnari óheimilt að leika með öðrum flokkum.

Atvikaskýrsla úr leik Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur  leikinn þann 07.10.08. Leikmaður Bjarnarins nr. 12 Hjalti Geir Friðriksson hlaut Game Misconduct.
Úrskurður: Brotið færist til bókar og við aðra brottvísun úr leik fer leikmaðurinn sjálfkrafa  í eins leiks bann.

Atvikaskýrsla úr leik Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur  leikinn þann 07.10.08. Leikmaður Skautafélags Reykjavíkur nr. 7 Gunnlaugur Karlsson hlaut Game Misconduct.
Úrskurður: Brotið færist til bókar og við aðra brottvísun úr leik fer leikmaðurinn sjálfkrafa  í eins leiks bann.

F.h. Aganefndar
Viðar Garðarsson, formaður.