Hvenær á að refsa mönnum fyrir að hreinsa útaf?
27.12.2007
Við dómararnir höfum undanfarið rætt okkar á milli um það hvenær eigi að dæma menn í 2.mínútna refsingu fyrir að skjóta pekkinum útaf. Eftir að hafa skoðað reglubókina og nýjustu útgáfu dæmabókarinnar (case book) og haft samband við alþjóða íshokkísambandið er þetta komið nokkuð á hreint.
Þrátt fyrir að regla 554 c segi að leikmann skuli fá refsingu fyrir að skjóta pekkinum útaf þarf að fara í dæmabókina (bls 68) til að sjá nánari útskýringar á þessarri reglu. Þar er tekið fram að til að leikmanni sé refsað verður hann að hreinsa pökkinn úr sínu varnarsvæði og hann verður að fara beint út af vellinum. Sé pekkinum speglað eða fari hann fyrst í glerið er ekki dæmd refsing. Einnig er ekki refsað fyrir að skjóta pekkinum útaf ef hann fer útaf þar sem ekki er gler.
Nýlega kom upp umræða um hvort ljós, grindur eða loftræstistokkar fyrir ofan svell teldust utan leikvallarins og hvort refsa bæri fyrir að hreinsa úr sínu varnarsvæði upp í ljós/grind/loftræsistokk.
Samkvæmt nýjustu útgáfu dæmabókarinnar (bls 68) er leikvöllurinn óendanlegur upp fyrir svellið og ber því ekki að refsa leikmanni fyrir að skjóta upp í ljós/grind/loftræstistokka.
Til að lesa meira um þetta er bent á bls 68 í dæmabókinni sem hægt er að nálgast á vef Alþjóða Íshokkísambandsins, http://www.iihf.com/fileadmin/user_upload/PDF/Sport/casebook_0708.pdf