07.08.2006
Sú breyting hefur verið gerð á leikskipulagi næsta árs að 1. flokkur hefur verið endurvakinn að hluta og hann sameinaður 2. flokki. Einnig hefur leikjum verið fjölgað og spiluð verður 6 umferða deild líkt og í meistaraflokki. Leikmenn í þessum flokki verða leikmenn fæddir árið 1987 og yngri, þ.e. skv aldursflokkaskiptingunni eru árgangarnir fjórir; 1987, 1988, 1989 og 1990. Sem fyrr verða liðin þrjú sem tefla fram liði í þessum aldursflokki, þ.e. Björninn, SA og SR.
Mikið og gott unglingastarf félaganna undanfarin ár hefur gert það að verkum að fjöldi leikmanna á aldrinum 15 - 19 hefur farið vaxandi, sem síðan hefur valdið því að sífellt fleiri leikmenn komast ekki að hjá meistaraflokki. Nauðsynlegt þótti að bæta úr og skapa ístíma/leiktíma fyrir þessa leikmenn sem og alla hina sem þurfa á frekari leikreynslu að halda. Einnig er nauðsynlegt fyrir leikmenn á þessum aldri að keppa við sína jafnaldra og jafnoka til að bæta sig sem leikmenn, en skiptar skoðanir hafa verið um áhrif þess að láta óharðnaða unglinga keppa í fullorðinsflokki.
Þessi breyting verður vonandi til þess að skapa meiri ístíma fyrir þennan aldurflokk, sem síðar mun skila reynslumeiri og betur undirbúnum leikmönnum fyrir átökin í meistaraflokki og ekki síst landsliðin.