Undir tuttugu í Tallin, fjórða færsla, skrifað á laugardagskvöldi.

Tallin er ótrúlega falleg borg. Ég bjóst ekki við að sjá mikið í
snjókófinu en stuttur göngutúrinn áðan með Þorkeli Gíslasyni
fiskinnflytjanda sem hér býr, sýndi okkur nýja vídd. Fallega lýstar
götumyndirnar í elsta borgarhlutanum, Gamla Tallin voru heillandi í
skafrenningnum.
Hér eru hús frá öllum tímum. Borgin er mjög gömul og gegnum síðustu aldir
hefur hér verið blómleg miðstöð verslunar og mikið ríkidæmi. Hér voru
Danir, Svíar og Rússar ríkjandi til skiptis og Hansakaupmenn skildu eftir
sig mikið af dæmigerðum byggingum. Þó Sovétherinn hafi bombað Tallin
rækilega í lok seinna stríðs þá hélt gamla borgin miklu af sínu
upprunalega yfirbragði.
Við fórum inn í rétttrúnaðarkirkjuna sem er uppi á hæðinni og meðan
prestarnir veifuðu reykelsi á okkur og dýrlingamyndirnar þá keypti Jóhann
Björn myndarlegt kerti handa heilögum Georg og bað hann vera leikmönnum
okkar innan handar á morgun í leiknum við Spánverja.

Í dag er frídagur, æfing um miðjan daginn og frá litlu að segja öðru en að
við heyrðum mörg hrósyrði um frammistöðu Íslendinganna gegn Frökkum í gær.
Þó markatalan gæti virst lítilfjörleg hvað okkur varðar þá skal ég segja
ykkur að okkar menn risu í nýjar hæðir í leiknum í gær.
Frakkar hafa lið sem er heilsteypt og gríðarlega öflugt á okkar
mælikvarða. Þessir menn gera fá mistök og sjaldan og borða venjulega
reynsluminni lið í morgunmat án þess að þurfa að þurrka sér um munninn.
Í gær mættu þeir óvæntri mótspyrnu. Íslendingarnir spiluðu með sínu besta
allan fyrri helming leiksins. Þegar líkamlega þreytan fór að segja til sín
í seinni helmingi annars leikhluta duttu þeir alveg niður um tíma og
horfðu iðullega á bakið á frökkunum þegar þeir sigldu gegnum vörnina og
það kostaði nokkur dýrmæt mörk.
En... í þriðja leikhluta tókst Íslendingunum að rísa aftur upp og
endurnýja baráttuandann. Þó ekki gengi að brjótast í sókn nógu oft þá voru
þær hættulegar og varnarmúr okkar manna var að sögn frönsku leikmannanna
einn sá þéttasti sem þeir höfðu mætt.
3-9 var því ekki svo slæm úrslit fyrir okkar lið sem hélt af velli með
verðskulduðu stolti og nýrri reynslu sem á eftir að verða þeim dýrmæt.

Steindór fékk högg á lærvöðvan framanverðan og nokkra bólgu ofan við
hnéskelina svo ekki er alveg víst hvort hann verður orðinn nógu góður á
morgun. Smávegis kvef að hrella menn en annars virðist lítið þurfa að hafa
áhyggjur af heilsu leikmanna eins og er.