Miklagarðsför Íslenska Ísknattleikslandsliðsins undir tvítugu.
Sjötta dagbókarfærsla

Sálfræðihugleiðing í lokin.

Þá er þessari vinnutörn að ljúka. Liðið fékk silfurklump um hálsinn (ég líka :^) og þeir geta verið stoltir af því að ná þessum árangri.
Þeir sem verið höfðu lasnir vöknuðu frískir í morgun og eins og oft gerist þá hurfu öll eymsli í upphituninni fyrir leik. Einhverjir marblettir koma með heim og nú tökum við saumana úr kinninni á Ævari og setjum límræmur í staðinn.

Leikurinn við Ástrali var að sjálfsögðu hörkuspennandi.
Það er gríðarlega margt sem spilar inn í hvernig gengur í svona hokkíleik. Okkar liði var satt að segja spáð sigri af þeim sem vit hafa á en svo fór þó ekki.
Hluti vandans var eflaust það að andfætlingarnir náðu einhvers konar sálfræðilegri yfirhönd í upphafi meðan okkar menn voru að átta sig á þeim. Eitt mark datt inn um afar þrönga glufu eftir hraðaupphlaup markastjörnunnar og þetta mikilvæga fyrsta mark sló okkar menn of mikið niður. Annar leikhluti fór í að ná áttum og í lok hans voru okkar menn farnir að spila eins og þeir hafa getu til en það var of seint því tvö mörk höfðu bætst við. Þriðja leikhluta áttu okkar menn með réttu. Nú voru þeir loks farnir að spila í sínum getuflokki og leikurinn fór að mestu fram í varnarsvæði andfætlinganna. Markvörður þeirra bjargaði þeim hreinlega í síðasta leikhlutanum og eitt mark nægði sem sagt ekki til að jafna leikinn. Ef annar leikur væri á dagskrá við þá held ég bara að við munum vinna þá.
Ojæja.
Þetta var góð ferð. Ég hef ekkert nema hrós um þessa skemmtilegu og hæfileikaríku ferðafélaga og þó mér finnist hálf kjánalegt af þeim að halda upp á með því að hringja á leigubílaflota til að fara á MacDonalds sem er í fimm mínútna göngufæri héðan, þá lít ég nú á þá alla sem fullvaxta menn. Þetta eru ekki drengir, ekki strákar, þetta eru menn sem hafa verið landi sínu til sóma.

Takk fyrir mig