Vinnudagur og hvíldardagur.
Í gær nennti ég ekki að skrifa, við komum seint heim eftir Tyrkjatuskið og um það er fátt að segja umfram ágæta umfjöllun Viðars. Þetta var einn af þessum erfiðu leikjum sem eiginlega er gefinn og þess vegna ekki. Hljómar ankannalega en okkar menn vissu að þeir gætu tekið Tyrkina í bakaríið og þess vegna veitist þeim erfitt að ná upp og halda þeirri einbeitingu og krafti sem skapast þegar óvissa ríkir um úrslit. Fyrir bragðið er erfitt að sýna sínar bestu hliðar og róðurinn getur orðið þungur gegn liði sem á ekkert nema heiðurinn að verja.
En þeir voru alltaf fljótir að átta sig þegar frammistaðan slaknaði og þeir kláruðu þetta með sæmd. Dómarinn var því miður ekki af reyndara taginu og því settu nokkur klaufabrögð hans(á báða bóga) mark sitt á leikgleðina. Hvað um það, úrslitin voru vel ásættanleg og andinn góður.
Í gærmorgun, meðan leikmenn bjuggu sig til æfingar, fékk ég mér góðan göngutúr inn í íbúðahverfið í nágrenni íshallarinnar. Höllin er staðsett innan við gamla borgarmúrinn sem Ottómanar (Múslímirnir sem hertóku Miklagarð um miðja fimmtándu öld) byggðu til varnar borginni. Svæðið þarna er sem sagt aldagamalt og það var upplifun að rölta í mildu morgunsólskini um þröng stræti þar sem engir túristar koma því þetta er í fjærenda gamla borgarhlutans.
Fólkið var þarna að rölta úr búðinni á horninu með brauðhleif í hendi, flækingshundur lét mig vita að hér væri hans lén og ég skyldi vita að hann væri bæði grimmur og hættulegur en hélt sig nú samt uppi á veggstúfnum fyrir ofan veginn. Kettirnir, sem eru sennilega fleiri en íbúarnir í Istanbúl, sleiktu sólskinið, gjarnan ofaná bílunum og stoltur fress sýndi mér með vinlæðu sinni hvernig ætti að búa til nýja ketti. Byggingunum er erfitt að lýsa. Það eru gjarnan glaðir litir en fölnaðir. Þök eru flest löngu ónýt og hefur verið reynt að lappa upp á þau með ýmsu tiltæku svo sem plasti og tilfallandi fjölum. Alls staðar eru gerfihnattadiskar, yfirleitt þrír í hnapp til þess að ná hinum mismunandi sendihnöttum. Meira að segja á aumkunarverðustu hreysunum getur maður séð slíka diskaþrenningu og gjarnan hangir tyrkneski fáninn á stöng eða í glugga.
Víða rauk úr skorsteinsskrifli og greinilega var verið að brenna brúnkolum eða við. Ætli það hafi ekki verið hádegismaturinn á hlóðunum því ekki er kallt í Miklagarði þessa dagana og frekar að það þurfi að viðra hús en kynda.
Á leiðinni til baka í höllina gekk ég framhjá hverfislögreglustöðinni sem er hundrað metrum ofar. Hliðvörðurinn þar var greinilega stoltur og ánægður þegar ég bað um leyfi hans til að taka mynd. Manni verður hugsað til þess hvort nokkurn tíma komi til þess að lögreglan í Grafarvoginum standi með vélbyssu við hverfisstöðvarhliðið?
Myndir úr þessum göngutúr eru í myndasafninu sem bent er á í fyrsta pistil.
Á eftir ætla ég svo að velja úr þeim tæplega þrjúhundruð sem ég tók í dag.
Hvíldardagurinn í dag var eins og spáð hafði verið, sólríkur mildur og lygn. Upp úr hádegi fór líka eldamennska íbúanna í bland við útblásturinn úr milljónum bílskrjóða að segja til sín og undir kvöld var reykmistrið orðið stingandi í augu og barka.
Okkur var hleypt úr rútunni fyrir utan kirkjuna sem fyrstu útrásarvíkingarnir á þessum slóðum þekktu undir nafninu Ægisif. Haghia Sofia kölluðu grikkir hana og tyrkirnir Ayasofia. Öll þessi nöfn hljóma eitthvað kunnuglega og allt í einu rennur upp fyrir manni ljós, þetta er auðvitað frummyndin að því sem við nú erum að fárast sem mest yfir! Prufið bara að endurtaka Ægisif nokkrum sinnum hratt og þá skiljið þið hvað ég er að hugsa.
Þessi borg er ekki hvaða borg sem er. Hér mætast heimsálfurnar, helmingur borgarinnar er í Asíu, hinn helmingurinn í Evrópu, Á milli er þröngt skipgengt Bospórussundið, eina siglingaleiðin frá Svartahafi suður í marmarahaf og áfram inn í miðjarðarhaf. Hér fara allir um sem einhverja leið eiga um svæðið. Því var hér og er miðstöð athafnalífs og hér voru miklir peningar í umferð. Það vissu fyrstu útrásarvíkingarnir eða Væringjarnir eins og þeir kölluðust þá og þeir nýttu sér það 0rugglega rétt eins og okkar tíma víkingar gerðu í London. Margir Væringjar voru málaliðar Býsanskeisara og þeir hafa eflaust haft ýmis fjármálaleg umsvif hér.
Því getur maður ekki annað en staðfest að það sem við í dag erum að upplifa er sko engin ný bola.
Ojæja Við fengum á sokkaleistunum að skyggnast inn í eitt af grafhýsum soldána og sjá þar grænklæddar kistur soldánsfjölskyldu sem þar er geymd. Þessi grafhýsi eru nokkur og liggja í næsta nágrenni Ægissifjar leiddi aðstoðarmaðurinn okkur framhjá ymsum minnismerkjum og merkilegheitum og áfram nokkur hundruð metra upp götuna að meginmarkmiði dagsins, Bazarnum Mikla (http://en.wikipedia.org/wiki/Great_bazaar ) Þar var ákveðinn staður til að hittast aftur á og ég varaði menn við að fá sér Kebab því fátt er meira líklegt til að valda iðrasýkingu. Eg vona að hinir hafi ekki stolist í það en hópurinn sem ég fylgdi ætlaði í fyrstu að gera uppreisn gegn þessari valdníðslu í mér en eftir nokkrar fortölur og hræðilegar lýsingar á hvernig Kebabeitrun á sér stað (prófið að gúgla Kebab poisoning), þá sátu þeir alsælir á MacDonalds og svöluðu endalausri næringarþörf sem ég áður hef minnst á.
Á meðan fékk ég mér kaffi og heilhveitibrauðloku með geitaosti á Starbucks hinum megin götunnar.
Það er ekki hægt að lýsa Bazaarnum Mikla. Það verður bara að upplifa hann. Hugsið ykkur endalaust völundarhús þröngra gatna frá þretándu öld, fyllt af yfir fjögur þúsund glingurbúðum. Þarna hefur verið stunduð verslun og iðnaður allt frá þrettándu öld en nú er þetta eins konar Kolaport í tíunda veldi.
Glingrið sem þarna fæst er reyndar fyrir mér frekar óspennandi svo ég keypti ekkert. Ég kann ekki að versla föt eða slæður, gæti ekki þekkt muninn á silki og lérefti og langar ekki í gerfi-Rolex úr eða gerfi-Gucci veski. Endalaust silfrið og gullið er sennilega mest örþunn húð á látúnsgrunni og perlumóðurgreyptu öskjurnar sem ég var að velta fyrir mér voru illa gerðar. Það er nánast það sama í öllum búðunum en innanm eru svo ekta vara, antík og skartgripir en þá erum við að tala um allt annað verðlag.
Það var allnokkur skemmtun að fylgja litla hópnum gegnum endalausa ganga þessa elsta flóamarkaðar heims og fylgjast með tilburðunum við prúttið. Sumum tókst vel upp, öðrum miður en allir skemmtu sér konunglega. Fyrir bragðið lét ég hjá leiðast að fylgja minni eigin áætlun sem var að fara aftur niður að Ægisif og borga mig þar inn til að upplifa betur þessa svakalegu byggingu sem staðið hefur þarna síðan á sjöttu öld. (http://en.wikipedia.org/wiki/Hagia_Sophia) Það er ekki laust við að ég sjái eftir því að hafa ekki skellt mér, eða kannski var það ómeðvitað bragð til að plata sjálfan mig til að þurfa að koma hingað aftur í betra tómi og taka konuna með. Viðar fór hins vegar og ég reikna með að hann setji inn myndir þaðan.
Til þess að virkilega upplifa þennan sögufræga stað þarf maðr að hafa undirbúið að betur og ekki vera að líta eftir hungruðu hokkílandsliði.
Á leiðinni til baka frá Bazaarnum komu allmargir við í apóteki sem greinilega gerði sérstaklega út á að selja stinningarlyf því það var raðað nokkur hundruð öskjum af þessum eftirsótta en nokkuð dýra varningi í gluggann svo það færi nú ekki milli mála að slíkt væri þar til frjálsrar sölu. Hvort einhver liðsmanna bætti öskju eða tveimur í pokann skal liggja milli hluta en mikið var gantast með hugsanleg áhrif á leikgetu og sá liðslæknir sig knúinn til að láta þau boð út ganga að inntaka slíkra efna væri óæskileg fyrr en heim væri komið til sinna nánustu.
Eftir Bazaarinn var svo samkvæmt ósk leikmanna farið í Mollið. Þessi marghæða glanskringla var nánast púkaleg í samanburði við Bazaarinn. Það fannst mér allavega. Ég held að liðið hafi nú líka fengið lítið út úr því að ráfa í tvo tíma um tuttugfalda Smáralind og lítið sýndist mér í pokunum umfram glingrið úr móður allra Kolaporta: Bazaarnum Mikla.
Á morgun er svo mikilvægasti leikur mótsins. Leikurinn um uppgöngu í aðra deild.
Myndaalbúmið er hér.