Miklagarðsför Íslenska Ísknattleikslandsliðsins undir tvítugu.
Þriðja dagbókarfærsla

Um hvar gott er að búa og milliríkjadeilu sem lauk farsællega

Segiði svo að það sé slæmt að búa í Íslandi.

Þó hér sé kominn sumarhiti , allavega á íslenskan mælikvarða og kálið í garðinum hjá gömlu konunni fyrir utan íshöllina komið í ökklahæð, þá er nú ýmislegt að athuga.
Bensínlítrinn reiknast okkur að kosti tæpar 318kr í sjálfsafgreiðslu og vatnið í krananum er vont. Loftið er reykmettað og fátækt og sóðaskapur heldur áberandi. Youtube er læst því þar voru víst fyrir nokkrum árum settar inn einhverjar myndir um þjóðarmorð á Armenum, sem Tyrkir vilja ekki kannast við.
En þetta er stolt þjóð og metnaðarfull. Þeir ætla sér að skara fram úr á mörgum sviðum, komast í EB og verða góðir í ísknattleik.
Það síðarnefnda gengur nú svolítið brösulega. Þeir töpuðu illa fyrir Norður-Kóreu í gær og núna áðan fyrir Tævönum. Á morgun spila okkar menn við Tyrkina og það þarf eitthvað að breytast ef Þjóðsöngurinn okkar hljómar ekki annað kvöld líka.
Tyrkirnir hafi verið í mesta brasi með uppbygginguna, kannski farið sér heldur geyst og gleymt því að árangur næst ekki með því að ráða heimsþekkta þjálfara og byggja marmaraklæddar íshallir, hann næst með margra kynslóða harðri vinnu við að byggja upp ísknattleikselskandi árganga frá barnæsku og uppúr.

Fyrir leikinn í dag við Norður-Kóreu vorum við nokkuð óvitandi um hvað í vændum væri. Þessir skáeygu naggar sem virðast aldir upp í hernaðarlegum einræðisaga, gátu lumað á ýmsu. Við vissum svo sem að þeir væru kannski ekki með mikla reynslu út fyrir eigin landsteina en samkvæmt liðsmannatöflunni koma þeir úr að minnsta kosti fimm mismunandi félögum svo einhverja leikreynslu hlytu þeir að hafa. Úthaldið, kraftinn, agann og hraðann vissum við að vantaði ekkert upp á hjá þeim og tækni og samspil virtist talsvert þróað.
Það var ekki laust við beyg í hópnum fyrir leik en Íslensku leikmennirnir voru staðráðnir í að heyra þjóðsönginn hljóma aftur og vissu að þeir væru stærri en andstæðingarnir svo Josh lagði áherslu á að þeir nýttu sér það ásamt aga og einbeitni, þó án þess að brjóta af sér.
Í stuttu máli varð strax ljóst á fyrstu mínútunum að okkar menn höfðu allmikla yfirburði, ekki bara í skóstærð heldur einnig reynslu og kunnáttu. Hraðinn er að minnsta kosti sambærilegur og jafnan var nánast allan tímann okkur í hag.
En þeir voru hættulegir og sendu, eins og þeim virðist tamt, hvert langdræga flugskeytið á fætur öðru. Varnir Íslendinga voru þó í lagi og þeim veittist tiltölulega létt að stöðva þessar skyndisóknir.
Stórskemmtilegur leikur sem sagt.

Tyrkirnir vilja að sem flestir geti horft á sína menn í sjónvarpinu svo allir þeirra leikir eru hafðir klukkan 20 að staðartíma (18 að íslenskum tíma). Ef einhver nær tyrkneska TRT-2 eða TRT-3 þá gæti verið að það sé hægt að ná leiknum í beinni hver veit? Ef ekki þá er allavega hægt að fylgjast með þróuninni á vef alþjóðasambandsins eins og Viðar bendir á í sínum leikpistli á forsíðunni.