Fyrsta dagbókarfærsla.Það er ekki að spyrja að því með unga menn. Ef þeir eru ekki svangir þá eru þeir hungraðir.
Eftir nokkuð langdregið en ævintýralaust ferðalag með drjúgri viðkomu á Stokkhólmsflugvelli, þá komum við loksins á hótelið í Istanbúl undir miðnættið að staðartíma sem er tveimur tímum á undan Íslandi. Þó Tyrknesku Loftleiðir (Türk Hava Yollari) bjóði öllum upp á ríkulegan og góðan mat af fjórrétta prentuðum matseðli með vali milli tveggja aðalrétta, ekki síðra en á Saga Class, þá voru okkar menn ekki par hrifnir og borðuðu flestir lítið. Það varð til þess að þegar þessu venjulega þvargi um hótelherbergin var lokið þá öslaði banhungrað landslið Íslands í Ísknattleik af stað klukkan eitt um nótt í napurri slyddurigningu í leit að æti.
Það fannst eftir nokkra leit á Börgerkingbúllu sem var opin til tvö. Þeir hafa sennilega aldrei fyrr getað státað af jafn góðu kassa uppgjöri í lok dags og það að mestu í evrum því engin kort virkuðu þrátt fyrir fögur fyrirheit á límmiðum við innganginn. Eitthvað held ég að þeir hafi flýtt sér við eldamennskuna þvi mörgum þóttu borgararnir ekki fulleldaðir og salernisheimsóknir voru óvenju tíðar meðan á leik stóð í dag. Þetta virðist nú samt ekki slæm magapest og vonandi hjálpa hylkin með mjólkursýrugerlum eitthvað.
Íshokkílandslið er venjulega ekki með neinn smávægilegan farangur meferðis. Það er regla frekar en undantekning að eitthvað verði eftir á leiðinni en gagnstætt venju, birtist núna allur farangurinn á færibandinu í Istanbúl. Það var nokkuð sláandi að koma út í kvöldrigninguna og ringulreiðina fyrir utan þennan risaflugvöll í borg sem enginn veit nákvæmlega hversu margir byggja. Við síðasta manntal gáfust þeir upp eftir 12 milljónir en talið er víst að a.m.k. sjö til viðbótar búi þarna.
Umferðin er ótrúleg og greinilega gildir sama einfalda meginregla og í Erzurum sem við heimsóttum sl. vor, nefnilega að sá sem kemur sér framfyrir á réttinn. Flautan er greinilega mjög mikilvægt samskiptatæki og hávaðinn og lætin eru óskapleg. Þótt við fengjum ekki lögreglufylgd eins og í Erzurum, þá fór bilstjórinn gegnum bæinn ens og hann ætti hann og að minnsta kosti þrisvar yfi á rauðu. Hótelið er kafli út af fyrir sig. Það fundum við reyndar ekki á neinum hótelpöntunar- eða upplýsingavefsíðum og vakti það allnokkrar áhyggjur fyrir ferðina. Það kom þó í ljós að þetta er ekki neitt venjulegt hótel heldur nýbyggð þjálfunar- og ráðstefnumiðstöð lögreglunnar í Istanbúl. Staðallinn á gistingunni er ekki af verri endanum. Byggingin og herbergjabúnaður mundi sennilega fá að minnsta kosti fjórar stjörnur en kosturinn hefur hingað til verið frekar óspennandi. Svona á borð á við mjög gott spítalafæði en fær tvær og hálfa fyrir að vera óskemmdur og næringarríkur og ekki vondur.
Miðstöð þessi er nýlega vígð og ég fann vef hérna með
myndaröð frá vígslunni í sumar. Allt er í skínandi marmara og í anddyrið er skreytt vaxmyndum af helstu fyrirmennum Istanbúllögreglunnar gegnum tíðina. Fremstur er að sjálfsögðu sjálfur Atatürk sem er þjóðhetja, sameiningartákn og átrúnaðargoð Tyrkja, eins konar Jón Sigurðsson eða George Washington Tyrklands. Á myndavefnum áðurnefnda má sjá fyrirmennin skoða sig um við vígsluathöfnina og á síðustu myndinni sjást þeir virða fyrir sér þegar lambi er slátrað við gangstéttarbrúnina hér fyrir utan, til þess að tryggja lukku og velgengni geri ég ráð fyrir. Það er ekki alveg laust við að maður finni ákveðna öryggiskennd í því að búa hér nánast á lögreglustöð og meira að segja nýlega blessaðri með lambsfórn. Að sjálfsögðu voru okkar menn reknir fram úr fyrir allar aldir og látnir svitna svolítið á ísnum í morgun. Andinn í liðinu er frábær og Josh þjálfari virðist ná vel til þeirra og beita einföldum, hnitmiðuðum aðferðum við að kveikja í þeim baráttuandann og leiða þá saman.
Ég geri ráð fyrir að aðrir skrifi af meiri kunnáttu um gang leiksins. Ég læt mér nægja að með stolti segja að þetta fór einstaklega vel fram og prúðmannlega. Okkar menn voru til sóma á allan hátt og tuskuðu Tævanina tryggilega þegar þeir loksins höfðu burstað af sér ryðið á fyrstu fimm mínútunum. Eftir fimm til viðbótar voru þeir búnir að setja þrjú góð mörk og eftir það var þetta kurteislegur leikur kattarinnar að músinni. Ekki svo að skilja að þeir hafi ekki þurft að hafa fyrir því. Þeir gátu aldrei slakað á eitt augnablik því inn á milli voru ansi skæðir Tævanir með tæknina yfir meðallagi en okkar lið er heilsteypt og í því eintómir kunnáttumenn svo yfirburðirnir eru skýrir.
Leikniðurstöður má finna hér.Þess ber að geta til skýringar að Tævanirnir kalla sig Chinese Taipei þegar þeir koma fram alþjóðlega í íþróttum. Þetta verða þeir að gera til þess að forðast illindi við Stór-Kína sem alltaf hefur haft horn í síðu þess að Tævan telji sig sjálfstætt kínverskt ríki (Republic of China).
Um þetta er fróðleg lesning á Wikipedia.Ennfremur má á sama fróðleiksvef lesa um hin mörgu nöfn Istanbúl, sem forfeður okkar
kölluðu Miklagarð.
Nokkrar myndir eru hér.
Ég set kannski texta við þær seinna.
Björn Geir Leifsson