Dagur 9 - síðasti leikurinn.

Ekki byrjaði dagurinn gæfulega, mikil afföll í morgunmat.  Þegar talið var í hópnum kom í ljós að sex leikmenn voru veikir og frekar döpur stemming í hópnum.  Þjálfararnir ákváðu að sleppa æfingunni og leyfðu leikmönnum að velja hvort þeir kæmu í hádegismat á hótelinu eða færu um hálf þrjú leitið í steik á veitingahúsi í grenndinni. 
Fyrsti leikur dagsins var leikur á milli Spánverja og Ástrala.  Ef Ástralir töpuðu þessum leik mundu þeir falla úr 2. deild en ef þeir næðu 2. marka sigri færu Spánverjar niður.  Þrátt fyrir að Spánverjar væru búnir að missa fjóra menn úr hópnum hjá sér vegna agavandamála og leikbanna þá kom fljótt í ljós að Ástralar áttu engann séns í leiknum sem lauk með 6-3 sigri Spánverja.  Næsti leikur var leikur Ungverja og Króata, Ungverjar sem höfðu verið með langbesta liðið á mótinu héldu uppteknum hætti og unnu króatana 4-0. 
Við áttum síðasta leik mótsins við Rúmena og vorum við á því að við gætum alveg átt möguleika á góðum úrslitum.  Það kom þó fljótt í ljós í leiknum að okkar menn spiluðu bara af hálfum krafti.  Nokkrir voru að stíga upp úr veikindum, aðrir voru að veikjast og einhverjir voru bara latir.  Í fyrstu lotu áttu rúmenar 17 skot á mark á móti 2 skotum okkar manna en Aron var vel vakandi í markinu og varði öll nema eitt.  Í annarri lotu fengum við á okkur 19 skot á móti 11 og fengum á okkur tvö mörk.  Í þriðju lotu var liðið endanlega búið á þvi og fengum við á okkur 2 mörk úr 20 skotum en náðum einungis 3 skotum á mark sjálfir.  Maður leiksins í okkar liði var Egill, hann var einn af þeim í liðinu sem barðist allan leikinn.
Í heildina var Úlfar valinn besti maður liðsins, hann var sá leikmaður sem skilaði að jafnaði bestu og barðist alltaf til enda leiksins og fékk að launum veglegt úr frá Alþjóða Íshokkísambandinu.
Eftir leikinn voru verðlaunaafhendingar, Ungverjar unnu mótið, Rúmenar voru í öðru sæti og Króatar í því þriðja. 
Um ellefuleytið fórum við svo út að borða og erum núna að bíða eftir rútunni sem sækir okkur klukkan 2:30.
 
Kv
Jón H