Dagur 7 - skandall og kjúklingalifur.

Dagur 7, skandall og kjúklingalifur
Við áttum fyrsta leik þennan daginn, kl. 13:30 og var því farið snemma í morgunmat, haldinn fundur og svo tekinn hádegismatur kl. 11:30. 
Á sama tíma var áfram reynt að ná töskunni hans Þorsteins, eftir að hún hafði tekið flakk til Búdapest var hún föst í París.  Menn frá rúmenska sambandinu voru búnir að marg hringja í Tarom flugfélagið í Búkarest og biðja um að þeir létu senda töskuna.  Tarom svaraði því til að þeir væru búnir að margbiðja um að taskan yrði send til Búkarest en einhverra hluta kæmi hún ekki.  Á sama tíma sagðist Icelandair ekkert geta aðstoðað okkur því þetta væri vandamál Tarom flugfélagsins.  Við vorum orðinir mjög undrandi á þessu öllu saman, Tarom segist ekkert frekar geta gert, Icelandair segist ekkert geta gert og þeir í París gera ekkert.  Við reyndum að hringja beint í upplýsingar og tapað og týnt á Charles de Gaule flugvellinum í París en fengum bara símsvara eða starfsfólk sem talaði frönsku og það réðum við ekki við.
Þennan dag gátum við ekki fengið lánaða skauta fyrir Þorstein þar sem við spiluðum fyrstir og enginn vill lána skautana sína áður en hann spilar sjálfur.  Þorsteinn varð því að sitja upp í stúku með starfsmönnunum og horfa á leikinn.  Það er auðvitað ömurlegt að lenda í svona, leggja á sig erfiði og kostnað við að ferðast til annars lands til að keppa með landsliðinu og fá ekki keppnisbúnaðinn sinn.  Við í fararstjórninni erum orðnir algerlega ráðalausir og er það á hreinu að það þarf að skoða þessi mál ítarlega þegar heim er komi því landsliðið er ekki að lenda í þessu í fyrsta sinn.
Allir vissu að Ungverjar eru með besta liðið á mótinu og bjóst því enginn við sigri, en allir leikmenn Íslenska liðsins mættu á svellið til að berjast til síðasta blóðdropa.  Ungverjar sóttu mun meira en okkar menn en þeim tókst ekki að skora fyrr en á 14. mínútu.  Strákarnir okkar gáfust ekki upp heldur börðust eins og ljón og uppskáru mark á 17. mínútu.  Við misstum tvo menn útaf með stuttu millibili en vörðumst vel 3 á móti 5.  Steinar Páll var sá fyrri og þegar hans tími í refsiboxinu var lokið stökk hann út á ísinn og fékk pökkinn um leið.  Hann skautaði á fullu upp svellið, bakvið mark Ungverjanna og kom pekkinum á Emil fyrri framan markið og hann skoraði.  Þetta mark dugði til þess að við komumst himinlifandi í leikhlé með stöðun 1-1.
Eftir hlé var um allt annað að ræða, Ungverjarnir mættu tvíefldir til leiks en okkar menn algerlega sprungnir.  Á fyrstu sjö mínútum lotunnar skoruðu Ungverjar 4 mörk og á 10. mínútu brutu þeir í fjórgang á Emil þar sem hann var með pökkinn fyrir aftan þeirra mark og fengu einungis dæmt á sig fjórða brotið.  Eithvað fauk í Emil og lamdi hann kylfunni í battann á leiðinni í skiptingu og hlaut að launum 10 mínútna áfellisdóm. Okkur Íslendingunum fanst þessi dómur óþarflega harður, miðað við að það var búið að raðbrjóta á Emil var ekkert skrítið þó fyki í hann. Eftir að Emil fór útaf bættu Ungverjarnir við 4 mörkum og staðan var 9-1 í öðru leikhlé.
Um þriðju lotu er ekki margt að segja annað en að Aron leysti Inga af í smá stund meðan hann skrapp að pissa og Ungverjar léku sér af því að skora 8 mörk.  Lokastaðan var því 17-1.
Það var frekar niðulútur hópur sem sneri til búningsklefans eftir leikinn.  Ingi markmaður var valinn maður leiksins, þrátt fyrir að hafa fengið á sig 17 mörk þá varði hann 51 skot og það mörg mjög erfið.  Eftir þennan leik hafa allir leikmennirnir fengið að spreyta sig því Ed og Helgi leyfðu nú þeim strákum sem sitja venjulega á bekknum að taka þátt.
Eftir leikinn hélt einhver í hópnum því fram að það væri kjúklingalifur í matinn og leist mönnum ekkert á það.  Meira að segja Ed fanst það of gróf refsing fyrir leikinn og fóru menn út að borða.  Af hverju ættu menn að borða kjúklingalifur frítt þegar flott nautasteik á veitingahúsunum í kring kostar 350-500 kr. 
Um kvöldið horfðu sumir á síðasta leik dagsins meðan aðrir slökuðu á upp á hóteli.  Þar sem dagurinn á eftir var frídagur fengu menn að vaka lengur, eða alveg fram að miðnætti.

kv
Jón H