15.12.2006
Þessi dagur byrjaði á sögunni endalausu, að fá töskuna hans Þorsteins afhenta. Eftir að hafa reynt árangurslaust að ná sambandi sjálfir við flugfélagið sem flaug með okkur hingað var brugðið á það ráð að sækja úr sem flestum áttum. Starfsfólkið í afgreiðslunni á hótelinu, læknir mótshaldara og ÍHÍ voru öll fengin til að hringja í flugfélagið. Upp úr hádegi kom í ljós að taskan hafði verið send frá París til Budapest í staðin fyrir Búkarest og átti að fara aftur til Parísar og vonandi þaðan til Budapest og til Miercurea Ciuc. Við veltum enn og aftur upp þeim möguleika að kaupa nýja skauta á Þorstein en honum leist ekkert á það og brugðum við því á það ráð að athuga hvort Ástralirnir gætu lánað okkur skauta. Ástralirnir sögðu það ekkert mál þar við spiluðum á eftir þeim.
Við vorum sæmilega bjartsýnir fyrir leikinn við Króatana en vissum að hann yrði erfiður.
Leikurinn hófst kl. 17:00 (15:00 á íslandi) og vorum við varla mættir á svæðið þegar Króatarnir skoruðu sitt fyrsta mark. Þeir héldu áfram að hamra á okkur og náðu að skora þrjú mörk á fyrstu 10 mínútum leiksins. Það var svo ekki fyrr en á 13. mínútu að okkar menn létu finna fyrri sér. Við fengum "power play" og nýttum það vel. Gauti átti sendingu á Emil við bláu línu króatanna og gerði Emil sér lítið fyrir og spólaði í gegnum alla vörn þeirra og setti pökkinn yfir markmannin og í netið. Staðan eftir fyrstu lotu var því 3-1 fyrir Króata, þeir áttu 12 skot á mark á móti 7 skotum okkar manna.
Önnur lota byrjaði ekki gæfulega fyrir okkur, Króatarnir skoruðu á annarri mínútu. Þá var ákveðið að skipta um markmann og kom Ingi inn á í staðinn fyrir Aron. Ekki dugði þessi skiptin til því einungis tveim mínútum síðar bættu króatar við marki. Nú var Íslendingunum nóg boðið, Ingi var orðinn heitur og lokaði markinu og strákarnir bættu í sóknina. Patrek skoraði eftir stoðsendingu Gunna og svo var komið að guttunum í liðinu. Pétur átti sendingu á Egil sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir landsliðið. Króötum tókst að setja eitt mark til viðbótar í þessarri lotu en Steinar Páll bætti einu við fyrir Íslendinga eftir stoðsendingu Emils. Staðan í lok lotunnar var því 6-4. Króatarnir áttu 24 skot á mark á móti 5 skotum okkar manna en nýtingin var mun betri okkar megin þar sem bæði liðin skoruðu 3 mörk.
Þriðja lotan hófst með mikilli baráttu, á fyrstu 7 mínútunum voru menn sendir sex sinnum í refsiboxið og voru Króatarnir heldur grófari mað 4 af þessum dómum. Á 7. mínútu skoraði svo Emil "power play" mark eftir sendingu frá Birki. Emil var svo aftur á ferðinni á 13. mínútu lotunnar og jafnaði leikinn í 6-6 án stoðsendingar. Því miður misstum við tvo menn útaf með stuttu millibili og skoruðu Króatar "power play"mark. Þegar rétt rúm mínúta var eftir af leiknum tókum við markmanninn útaf í skiptum fyrir sóknarmann til þess að freista þess að jafna leikinn. Það gekk ekki eftir og náðu Króatar að skora í tómt markið.
Þessi leikur fór því 8-6 fyrir Króötum en við hefðum alveg eins getað unnið hann. Maður leiksins í íslenska liðinu var valinn Emil Allengard enda var hann gríðarlega duglegur í þessum leik og réðu Króatarnir ekkert við hann.
Drengirnir okkar voru mjög svekktir eftir þennan leik og var tekið á það ráð að leyfa þeim að fara og borða annarstaðar en á hótelinu.
Eftir leikinn kom í ljós að taskan hans Þorsteins var enn í París, þrátt fyrir að tvö eða þrjú flug höfðu farið til Búkarest eftir að hún kom þangað.
Allir strákarnir fóru svo í háttinn um ellefuleytið.
kv
Jón H