Fara í efni
3. dagur Narva
15.03.2010
3. dagur Narva
Stór dagur í íslensku íshokkíi!
Dagurinn tekinn snemma að venju og menn ræstir kl. 7:15. Leikdagur og andstæðingarnir Serbar, sem höfðu deginum áður unnið öruggan sigur á Eistum 3-0. Létt morgunæfing var tekin um níuleytið. Allir frískir og heilir eftir Króata leikinn, nema Ólafur Hrafn en flensan neitar að gefast upp á því að herja á hann og fékk hann að hvíla sig á hótelinu. Það var mál okkar þeirra sem fylgjast með liðinu að allt annað var að sjá til liðsins á þessari morgunæfingu en þeirri fyrstu, en því er ekki að neita að menn höfðu smá áhyggjur af styrkleika Serbana, í ljósi sigur þeirra á Eistum kvöldinu áður. Eftir æfingu var farið aftur upp á hótel og tekin hádegismatur. Við höfum áður minnst á skömmtunarstefnuna á matnum, en fulltrúar frá Alþjóðahokkísambandinu, eru búnir að koma á hótelið og lesa mönnum pistilinn og hér eftir á að vera séð til þess að íslensku víkingarnir fái nóg að borða. Við lentum t.d. í því á fyrsta kvöldinu að senda eftir mat eftir fyrir þá Kára og Sigurstein, en þegar röðin kom að þeim í matnum var hann búinn. Sent var eftir Chineese-Takeaway kínverskum núðlum. Eftir drjúga stund kom frekar svo skuggalegur gaur, eins og strákarnir myndu segja með matinn. Síðan kom í ljós að þessar kínversku núðlur voru ekkert annað en spagettí ættað eflaust frá Ítalíu í dulargervi. Kári var alveg sannfærður um að Gaurinn væri mafíósi En aðalatriðið var að þetta var matur og drengirnir sofnuðu saddir.
Svo rann stundin upp, leikurinn á móti Serbum, kl. 16:30 að staðartíma. Fyrsta línan með þá Snorra markmann, Sigursteinn og Ingó í vörninni, Gunnar Darra senter og Tómas Tjörva og Björn Róbert á vængjunum. Okkar menn lentu í vandræðum í byrjun sérstaklega hann Sigursteinn greyið en það hefði mátt ætla að annars góður norskur dómari leiksins hefði gaman af því að senda hann í boxið. Nú ekki batnaði staðan þegar Tómas Tjörvi (TommiT) fékk 2 plús 10 fyrir bak tjékk. En við vörðumst öllum refsimínútum en Serbarnir komust í 1-0 á 15. mínútu og þannig var staðan eftir fyrsta leikhluta og við síst lakari aðilinn. Strákarnir mættu ákveðnir í 2. leikhluta og á 26. mínútu var einum Serbana vísað í refsiboxið og nýttum við það okkur og TommiT jafnaði án stoðsendingar. Á 31. mínútu komust við svo yfir með glæsilegu one-touch marki Arilds Sigfússonar, sem skoraði sitt fyrsta unglingalandsliðs mark, eftir stoðsendingu frá TommaT. Serbarnir neituðu að gefast upp og jöfnuðu á 34. mínútu. En vendipunkturinn í þessum leik var á 38. mínútu þegar við vorum einum færri, þegar Gunnar Darri tók út refsingu í boxinu og við skoruðum þriðja markið okkar og þar var TommiT aftur að verki eftir góðan undirbúning Björns Róberts. Annar leikhluti svo að baki og Ísland með forystu 3-2 og það fór að læðast að undirrituðum að við gætum auðveldlega unnið þennan leik, ef við myndum spila svona í þriðja leikhluta. Það var varð svo reyndin því við bætum frekar í heldur en hitt og Ólafur Hrafn bætti við fjórða markinu okkar á 54. mínútu án stoðsendingar og þannig lauk leiknum með sanngjörnum sigri okkar Íslendinga og ég held ég fari með rétt mál að þetta er fyrsti sigur Ísland á Serbum í íshokkí. Frábær leikur liðsins og strákarnir til alls líklegir ef við spilum og berjumst svona áfram í næstu leikjum. Sigur okkar manna hefur vakið hér heilmikla athygli, og við erum svo sannarlega talk of the town (sem ég ætla ekki að þýða yfir á eistnesku) hér á þessu móti. Í lok leiksins hljómaði svo íslenski þjóðsöngurinn Lofsöngur....en eitthvað virtist geisladiskurinn sem var spilaður rispaður (varla af mikilli spilun), en eftir nokkrar tilraunir til að spila lagið..tókst það en svo stoppaði hann aftur þegar kom að ....Ísland þúsund ár..., en strákarnir tóku hraustlega undir og kláruðu þjóðsönginn og sungu þá fullum hálsi, sem sannir Vormenn Íslands! Einhverjir þeirra geta klárlega lagt fyrir sig sönginn þegar hokkíferlinum lýkur.
Steindór Ingason varnarmaður var valinn besti maður íslenska liðsins, en hann átti frábæran leik í vörninni líkt og allir leikmenn liðsins. Tölfræðin var líka okkur í hag, við áttum 36 skot á markið gegn 25 skotum Serbana. Við vorum líka oftar í refsiboxinu, en 28 mínútur á móti 22 mínútum hjá þeim. Glæsilegur sigur okkar staðreynd og við komnir með 3 stig. Myndir úr fyrstu tveimur leikjum okkar eru á síðu Alþjóðahokkísambandins gegn Króötum http://www.iihf.com/channels0910/wm18-iia/pictures/iceland-croatia-mar-13.html og gegn Serbunum á þessari slóð: http://www.iihf.com/channels0910/wm18-iia/pictures/serbia-iceland-mar-14.html
Myndir sem m.a. undirritaður hefur tekið, koma vonandi inn á mánudaginn, en netsambandið hefur aðeins verið að stríða okkur.
Það voru þreyttir en stoltir strákar sem lögðu sig að kveldi í fletið. Á morgun verður morgunæfing og síðan frí, sem verður notað til þess að fara í bowling og verður sagt frá því í næsta pistli héðan frá Narva.
Bestu kveðjur til allra frá U-18!
Sigurður Kr. Björnsson