Venjulegur föstudagur í vinnunni.

Það má næstum segja að dagurinn hafi verið ósköp venjulegur... og þó.
Farið á æfingu tiltölulega snemma og við hinir stálumst á bakvið í te hjá
köllunum meðan Sergei hristi upp í liðinu.
Magnaður drykkur þetta svarta,
sterka te sem samt er þynnt til helminga með vatni úr samóvarnum. Það er
helst drukkið úr sérstökum glösum og gjarnan sítrónubiti í og moli á
tungu.
Það mætti okkur í höllinni talsverður hópur lögreglumanna og ljóst að
sigur okkar manna daginn áður vakti áhyggjur ráðamanna. Ætli 18 - 1 tap sé
ekki frekar niðurlægjandi fyrir þetta stolta fólk og aldrei að vita hvað
einhver geti tekið upp á. Allavega virðist talsvert líf í unglingastóðinu.
Það var þungvopnaður vörður í höllinni allan daginn eins og sést á
myndasíðunni, og óeinkennisklæddir lögreglumenn fylgdu okkur þegar við
fórum upp á pall að horfa á fyrsta leikhluta næsta leiks og ruddu
hreinlega sætin fyrir aftan til þess að enginn færi að atast í okkur. Á
leið út úr höllinni fylgdi vopnað lögreglulið okkur út í rútu.
Við höfum rætt það ítarlega og lagt ríka áherslu á það við strákana að
þeir forðist allt sem gæti hugsanlega ögrað andstæðingunum eða áhorfendum.
Okkar menn eru ekki vanir fleiri þúsund áhorfendum, hvað þá tyrkneskum
slíkum og þekkja ekki þá grundvallarreglu við slíkar aðstæður að láta eins
og áhorfendur séu ekki til. Einn okkar manna hafði lyft höndum til
áhorfenda í leiknum í gær og þótt það væri ekki gert á ögrandi hátt heldur
frekar til þess að heilsa góðlátlega, þá vakti það sterk viðbrögð. Atvikið
var meira að segja til umræður á sérstökum liðstjórafundi í gær, sem þó
var fyrst og fremst kallað til út af leiðinlegu atviki daginn áður. Þá var
írskur leikmaður krosstjékkaður (sleginn með kylfu sem haldið er með báðum
höndum og lyft af ísnum) í höfuðið af Búlgara og hlaut vægan
heilahristing. Búlgarinn fékk 2+10 mínútna dóm þyngdan í Game penalty.
Restin af búlgarska liðinu hefur áreiðanlega verið tekin á beinið líka því
þeir héldu sér á mottunni í leiknum og léku af prúðmennsku.
Leiknum verður eiginlega best lýst annig að hann var "með hefðbundnu
sniði" Þegar fyrstu mínúturnar voru liðnar var ljóst hverjir hefðu algera
yfirburði en Búlgaririnir ætluðu ekki að gefa okkur þetta frítt og börðust
hetjulega. Fyrstu tveir leikhlutar unnust 4-1 og 4-1.
Drengirnir okkar unnu faglega og vel en í öðrum hluta, þegar ljóst var að
leikurinn væri nokkuð örugglega að vinnast voru drengirnir að snúa leiknum
upp í innbyrðis keppni um stigatöfluna. Þeir fengu hressilegt tiltal hjá
Sergei fyrir síðasta leikhluta, tóku sig á og fóru að skauta meira og
vinna betur saman og unnu þann hluta 7-0. Ætli Búlgararnir hafi ekki verið
orðnir þreyttir en þeir héldu vel út þrátt fyrir það.
Þegar upp var staðið var refsitími okkar samtals 12 mínútur og Búlgaranna
4. Þetta segir sína sögu.
Búlgörsku drengirnir hafa komð mjög vel fyrir og eru afskaplega kurteisir
og prúðir og tala góða ensku þeir sem við höfum kynnst.
Á morgun er frídagur. Spurning hvort ég nenni að skrifa sér pistil þá....
Svo er úrslitaleikurinn á sunnudaginn kl 17 að staðartíma, 15 að ísl.
tíma.

BGL