10.03.2009
Í morgun voru flestir strákarnir komnir niður á undan okkur. Þeir sátu í hóp, daprir í bragði og heldur vonlausir um næringarmálin þar sem ekkert sást til matar. Sergei þótti þetta nú eitthvað skrýtið en var snöggur að finna út að morgunmaturinn var handan við hornið innst í stórum salnum.
Ég verð nú að segja að þó ekki væri auðvelt að bera kennsl á marga réttina þá var þetta flottasta morgunverðarhlaðborð sem ég hef komist í tæri við .
Óteljandi bakkar af alls konar góðgæti og bakarinn var í óða önn að baka alls konar flatbrauð í alvöru viðarkynntum steinofni. Annar stóð skammt frá og steikti lummur upp á amerísku. Úrvalið af réttum var ótrúlegt og meðal annars taldi ég rúman tug af stórum skálum barmafullum af alls konar sýrópum, hunangi og berjamauki til að hafa með. Meira að segja var þarna hunangskaka í rammanum beint úr býflugnabúinu af henni gat maður skafið af með skeið. Meira orgínal verður það varla.
Drengirnir urðu að vonum hressir í bragði og vel upplagðir og það voru hraðskreiðir og kraftmiklir leikmenn á morgunæfingunni, vel styrktir af hunangslummum og öðru kraft-efni.
Eftir morgunverðinn vorum við kynntir fyrir alveg bráðmyndarlegri stúlku sem á að vera leðsögumaðurinn okkar í ferðinni. Hún er árinu eldri en elstu strákarnir í okkar hóp og er á öðru ári í íþróttakennaraskólanum hér í Erzurum. Nafnið hennar skriplar á íslenskum tungum svo við skýrðum hana umsvifalaust Eddu. Hin liðin fengu karlkynsleiðsögumenn og fyrir bragðið heldur afbrýðissamir.
Það hafði kyngt niður snjó um nóttina svo keðjur voru settar undir og lagt af stað niður hlíðina. Ég get bara sagt um þá ferð að menn spenntu bæði beltin og greiparnar. En þetta gekk nú vel þökk sé fínum bílstjóra sem keyrir okkur um allt. Nafnið hans er Addi upp á íslensku.
Hvílt var fram að hádegi og það voru hungraðir íslenskir leikmenn sem stóðu við matsalsdyrnar. Að vonum var þetta hin mesta veisla með allt frá djúpsteiktum smáfiskum til bragðmikillar lambakássu. Salatborðið er eins og í himnaríki og eftirréttirnir hlaðnir í margar hæðir á stóru borði.
með þessu gosdrykkir eins og hvern lysti.
Vel mettir fóru menn til leikundirbúnings.
Einn helltist úr lestinni (Jóhann Leifsson) með slæman höfuðverk í morgun og uppköst rétt fyrir brottför. Hann hvíldi í dag og var orðinn eldhress að kveldi svo hann verður nær örugglega með á morgun.
Leikvanginn voru menn í óða önn að klára. Nokkur rekistefna varð um leikmannabekkina sem heimamenn ætluðu að klæða í forláta ál-plast skýli gerð fyrir útifótbolta. Þeim fannst þetta hið versta mál að þessir ís-villimenn vildu ekki fínu fótboltagræjurnar þeirra en létu að lokum undan. (Tyrkir eru óðum að átta sig á að íshokkí er ekki alveg eins og fótbolti).
Leikurinn gekk afbragðs vel að öllu leyti. Auðvitað unnum við, en það var ekki það ánægjulegasta. Okkar menn stóðu sig nefnilega með stakri prýði og sýndu nokkur hundruð heimamönnum sem mættir voru, hvernig íshokkí er spilað. Búlgarirnir voru slakari og óreyndari og fengu á sig 108 skot á móti 9 skotum á okkar markmenn. Leikurinn endaði 11-0. Reyndar fengu bæði liðin á sig allt of mikið af dómum. Búlgararnir (44 mín) mest af þreytu og pirringi en okkar menn (24 mín) fyrst og fremst þar sem dómararnir voru virkilega góðir , sáu allt og dæmdu án nokkurrar vægðar.
Nú fyrst fór að streyma að fólk því nú átti sjálf opnunarseremónían með fallegum konum í þjóðbúningum, ráðherraræðuhöldum og alveg gífurlegum fagnaðarlátum frá troðfullri höllinni. Við horfðum á fyrsta leikhluta milli Tyrkja og Íra. Það var mikill liðsmunur þar sem Írar eru staddir þar sem við vorum fyrir allmörgum árum með íþróttina nánast á byrjunarreit.
En þetta vakti gífurlega ánægju hjá 2000 heimamönnum sem hvöttu sína menn af kunnáttu sem greinilega á uppruna sinn úr fótboltanum.
Það verður gaman að sjá hvað það koma margir að horfa á okkar leik við Tyrkina.
Nújæja, ekki þarf að orðlengja um það hvernig kvöldmaturinn var. Ekkert nema kræsingar.
Á morgun verður tekist á við óreynt lið Írlands.
BGL