09.03.2009
8. mars 2009
Eftir óvenju fljóta og liðuga innskráningu Keflavík var flogið til Kaupmannahafnar. Í Kaupmannahöfn bættust í hópinn Snorri Sigurbjörnsson'91 sem búið hefur lengi í Noregi og spilar þar með Frisk-Asker og Björn Sigurðarson '94 sem spilað hefur í vetur hjá Malmö Redhawks í Svíþjóð.
Frá Kaupmannahöfn var svo eftir nokkuð liðuga transfer-umskráningu, annað þriggja tíma flug til Istanbúl þangað sem allt komst með nema fatataskan hans Snorra (norska). Síðast var það víst útbúnaðurinn hans sem týndist og þótti þetta nú heldur skárra tjón þetta skiptið.
Turkish Airlines gaf okkur ríkulegan og góðan mat og drykk á leiðinni og það er greinilegt að þeir vilja stjana við gestkomandi. Af einhverjum undarlegum ástæðum kvörtuðu þó flestir drengirnir sáran undan matarleysi og sjoppurnar voru aftur vel sóttar í Istanbúl. Flugvélin til Erzurum var öllu hversdagslegri. Þéttar sætaraðirnar í 200 manna Airbus 312 voru pakkaðar af alls kyns þjóðarbrotum. Kúrdar, Zigaunar og Armenar, konur með skuplur og veðurbarnir gamlir menn með prjónakollu.
Við þótumst vissir um að asnakerrurnar stæðu og biðu þeirra í Erzurum. Og svo íslensku úrvalsdrengirnir auðvitað með æpodda, fartövlur. Samlokurnar með tómötum og geitaosti voru rifnar út svo sumir fengu bara salat og þótti sitt hlutskipti lítt seðjandi. Það var líka haft á orði að þótt móðurlegu, þroskuðu freyanna okkar í Icelandair, þá væru þær tyrknesku ólíkt meira augnakonfekt enda greinilega valdar út frá vaxtarlagi og andlitskennum. Í myrkrinu minnti flugvöllurinn í Erzurum mikið á Keflavíkurstöðina enda hafa víst Bandaríkjamenn notað hann til flutninga á vígvellina í austri.
Irak er beint í suður um 260 km, Til Bagdad eru bara 700 km og Íran er 240 km austur af okkur. Fyrir utan flugstöðina töldum við að minnsta kosti 5-6 lögreglubíla með blikkandi ljós.
Rútan þótti drengjunum sú flottasta, hingað til og vel merkt mótinu í bak og fyrir. Þegar farangurinn var kominn inn var allt gefið í botn og farið vel yfir hundraðið. Allt í einu fóru tveir lögreglubílanna fram úr og neyddu okkur til að hægja ferðina. Menn veltu fyrir sér hver sektin væri fyrir hraakstri hér í landi en viti menn... þeir ætluðu bara að fylgja okkur. Einn lagði sig með blikkandi ljós fyrir framan og annar fyrir aftan! Öðru horu þeyttu þeir sírenurnar svona til að gera þetta allt íburðarmeira Eftir þetta var aldrei farið yfir 40km á klst. Ja... hérna.
Við vissum varla hvort þetta væri til að heiðra okkur eða vernda?
Ekki fengum við neitt út úr bílstjóranum um það. Keyrt var gegnum þröngar holóttar götur milli endalausra slitinna íbúðarblokka þar sem litlir ruslagámar stóðu með 100 metra milliili alls staðar meðfram og virtust nýtæmdir en talsvert af ruslinu virtist hafa farið niður og dreifst um strætin.
Allt í einu var eins og keyrt væri inn í rjóður í blokkaskóginum og við blasti við þessi líka risavaxna íþróttamiðstöð sem greinilega er nýbyggð og engin smásmíði. Þar var útbúnaðurinn skilinn eftir og dáðst einlæglega að þessari glæsilegu og veglegu íshöll. Það kvisaðist út að leikurinn okkar á morgun við Búlgarina yrði vígsluleikur hallarinnar. Gestgjafar okkar voru augljóslega ánægðir með viðbrögð okkar manna sem vart héldu vatni af hrifningu yfir þessum glæsileik. Verið var að skreyta höllina fyrir morgundagin með blöðrum og myndin af Atatürk, þjóðhetju Tyrkja var að sjálfögðu komin upp á gafl ásamt fánanum.
Svo var lagt af stað, aftur í sömu, hægu lögreglufylgd á 40 km hraða upp krókóttan, brattann upp í fjallið Palandöken. Þar var okkur komið fyrir í fjögurra stjörnu skíðahóteli sem liggur í 2400 metra hæð. Sjálf borgin er í rúmlega 1700 metrum.
Þetta mun vera kaldasti staður í Tyrklandi og það snjóar 7 mánuði á ári.
Komið var undir miðnætti en kokkurinn var nú samt ræstur út og útbjó risavaxnar samlokur sem rennt var niður með appelsíni. Hann bað okkur margfadlega afsökunar á hvað þetta væri lítilfjörlegt þar sem hann hefði ekki vitað af komu okkar fyrr en of seint.
Sergei lagði upp strangar línur fyrir strákana um háttatíma og umgengni og rak svo alla í bólið til að vakna hálf sjö í fyrramálið fyrir morgunmat og æfingu.
Á morgun eftirmiðdag leikum við svo gegn Búlgörum
BGL