05.03.2007
Þeir sem gerst þekkja segja að aldrei hafi þurft að vekja jafna fáa liðsmenn íslensks landsliðs í íshokkí og þurfti í morgun. Ástæðan var að sjálfsögu sú að sólahringurinn er ennþá í svolitlu rugli hjá mönnum og því voru flest allir vaknaðir klukkan sex í morgun að staðartíma. Tekið var hraustlega á í morgunmatnum klukkan sem var klukkan níu og skömmu síðar haldið út í rútu og tekin stutt æfing niður á svelli. Á meðan æfingin fór fram leituðu farastjórar að einhverjum stað þar sem hægt væri að borða að leik loknum (u.þ.b. 23.00 að staðartíma). Þrátt fyrir að flestir brosi og kinki kolli játandi þegar spurt er do you speak english? þá er það sjaldnast raunin að þeir hafi einhverja kunnáttu í því máli. Við erum því enn að garfa í matnum en það blessast nú einsog allt annað. Klukkan er u.þ.b. að verða 13.00 hérna þegar þetta er skrifað og nú er allur mannskapurinn inn á herbergi að hvíla sig fyrir átökin síðar í dag. Einn er þó undanskilin en það er Sergei Zak sem situr niður í höll og kortleggur andstæðingana. Liðið fer hinsvegar í mat um klukkan fimm og síðan verður haldið niður í höll og att kappi við Tyrkina. Við sáum aðeins til þeirra á æfingu í morgun og strákarnir voru bara nokkuð bjartsýnir á að hafa sigur gegn þeim. Staðan í leiknum eftir hvern leikhluta birtist hér, eftir leik munum við síðan skrifa smá umfjöllun um leikinn en það ætti að vera um klukkan 16.00 að íslenskum tíma. Myndin var tekin inn í klefa eftir æfingu þegar strákarnir hlustuðu á þjálfarann fara yfir það helsta sem honum þótti máli skipta.