Frá upphafi tímabils hefur búnaður leikmanna oft verið ræddur með tilliti til þess hve ábótavant er að leikmenn yngri flokka uppfylli kröfur leikreglna Alþjóða íshokkísambandsins (IIHF). Þá sérstaklega með tilliti til hálshlífa og hjálma sem oft hafa verið lausir á höfðum leikmanna eða stilltir þannig að þeir geta auðveldlega farið af leikmönnum.
Þann 28. október átti sér stað atvik í ensku Elite deildinni þar sem leikmaður lést eftir hræðilegt slys vegna skurðs á hálsi. Þetta slys er mikið áfall fyrir alla íshokkíhreyfinguna.
Formaður dómaranefndar óskar eftir sameiginlegu átaki á búnaði leikmanna. Þjálfarar, foreldrar, leikmenn og ekki síst dómarar þurfa að vera samstíga í þessu verkefni.
Allir leikmenn 20 ára og yngri eiga að nota hálshlífar á æfingum og í keppni. Regla 202.5 í reglubók IIHF.
Allir leikmen 18-20 ára sem kjósa að nota hálft gler en ekki grind á hjálmi sínum eiga að nota góma á æfingum og í keppni. Regla 202.3 í reglubók IIHF.
Allir leikmenn skulu vera með rétt stilta hjálma. Vakin er athygli á því að hjálmar eiga skráðan líftíma. Útrunna hjálma skal ekki nota.
Regla 9.6 í reglubók IIHF. ATH regla 202.7-202.8 á einnig við um hjálma.
Samkvæmt reglu 9.5 í reglubók IIHF eiga leikmenn að vera í viðunandi keppnisbúnaði í upphitun. Gefi dómari viðvörun um búnað á meðan upphitun stendur sem leikmaður bætir ekki úr fyrir upphaf leiks skal dómari gefa tveggja mínútna brottvísun þegar leikur hefst. Vakin er athygli á að áminningin gildir bæði fyrir leikmanninn og liðið.
Allir leikmenn eru hvattir til að klæðast hlífðarbúnaði sem ver gegn skurðum.
Hugur okkar er hjá aðstandendum leikmannsins, fjölskyldu, liðsfélögum, þjálfurum, dómurum leiksins, áhorfendum og öðrum sem eiga um sárt að binda.
Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir
formaður Dómaranefndar ÍHÍ