Staðan í úrslitaeinvíginu 1 - 1

Á laugardagskvöldið mættust Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur í 2. leik úrslitakeppninnar í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri.  Fyrsta leik liðanna lauk með sigri Skautafélags Reykjavíkur en nú var komið að Norðlendingum að jafna metin.    Gestgjafarnir mættu miklu ákveðnari til leiks og tóku strax öll völd á vellinum og komust í 6 – 0 áður en gestirnir náðu að svara fyrir sig.
 
Leikurinn var engu að síður kaflaskiptur, loturnar fóru 4 – 0, 2 – 0 og 2 - 2.  Skautafélag Reykjavíkur lék án tveggja af sínum sterkustu leikmönnum, þeim Gauta Þormóðssyni og Zdenek hinum tékkneska og reyndist það fullmikil blóðtaka fyrir liðið.
 
Staðan í einvíginu er þá 1 – 1 og allt í járnum.  Næsti leikur fer fram á heimavelli Skautafélags Reykjavíkur í Laugadalnum á morgun kl. 20:00.