Úr leik liðanna á síðasta tímabili. Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir
Skautafélag Reykjavíkur og Víkingar frá Akureyri áttust við á íslandsmóti karla í íshokkí á föstudagskvöld. Leiknum lauk með sigri Víkinga sem gerðu 3 mörk gegn 2 mörkum SR-inga eftir að jafnt hafði verið að loknum hefðbundnum leiktíma 2 – 2.
Leikurinn var spennandi fram á síðustu sekúndu en það voru Víkingar sem náðu forystunni í leiknum þegar fyrsta lotan var rúmlega hálfnuð með marki frá Lars Foder.
Fljótlega í annarri lotu jöfnuðu SR-ingar metin þegar þeir nýttu sér að vera manni fleiri á ísnum. Markið gerði Steinar Páll Veigarsson. Ekki komu fleiri mörk í annarri lotu en lið gestanna í Víkingum sótti töluvert í lotunni án árangurs. Staðan því 1 – 1 eftir aðra lotu og leikurinn galopinn.
Strax í byrjun 3ju lotu kom Andri Már Mikaelsson Víkingum yfir og lengi vel leit út fyrir að það mark dygði norðanmönnum til sigurs. Daníel Hrafn Magnússon jafnaði hinsvegar metin fyrir SR-inga þegar rúmlega fjórar mínútur voru til leiksloka. Bæði lið fengu kjörið tækifæri til að klára leikinn og taka stigin þrjú. M.a. voru SR-ingar manni fleiri síðustu 40 sekúndur leiksins og Lars Foder leikmaður Víkinga komst einn gegn Ævari markmanni Víkinga en allt kom fyrir ekki.
Framlenging var því staðreynd en strax á fyrstu mínútu hennar skoraði Jóhann Már Leifsson markið sem gaf aukastigið.
Mörk/stoðsendingar SR:
Steinar Páll Veigarsson 1/0
Daníel Hrafn Magnússon 1/0
Egill Þormóðsson 0/1
Refsingar SR: 12 mínútur.
Mörk/stoðsendingar Víkingar:
Lars Foder 1/2
Andri Már Mikaelsson 1/0
Jóhann Már Leifsson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Refsingar Víkingar: 12 mínútur.