Frá leiknum í gærkvöld Mynd: Þórður Arnar Þórðarson
Skautafélag Reykjavíkur og Björninn áttust við í í gærkvöld í fyrsta leik úrslitanna um íslandsmeistaratitilinn í íshokkí. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði 7 mörk gegn 5 mörkum SR-inga.
Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks en rétt fyrir miðja lotu náðu SR-ingar forystunni. Það var Robbie Sigurdsson sem opnaði markareikninginn fyrir þá en á þeim tímapunkti voru SR-ingar einum manni færri á ísnum. Lengi vel leit út fyrir að þetta yrði eina markið sem gert yrði í lotunni en Bjarnarmenn áttu góðan endasprett og gerðu tvö mörk á stuttum tíma. Fyrra markið átti Brynjar Bergmann en það síðara Einar Sveinn Guðnason.
SR-ingar bættu nokkuð í sóknina í annarri lotu og Steinar Páll Veigarsson jafnaði metin fyrir þá fljótlega í lotunni. Bjarnarmenn voru hinsvegar fljótir að svara fyrir sig og einum færri kom Sergei Zak þeim yfir. Egill Þormóðsson sá hinsvegar til þess að jafnt var á með liðunum með því að skora mark á síðustu mínútu lotunnar. Staðan því 3 – 3 að lokinni annarri lotu.
Baráttan hélt áfram í þriðju lotunni og Sergei Zak endurtók leikinn frá því í lotunni á undan með því að skora mark þrátt fyrir að Bjarnarliðið væri einum manni færri á ísnum. SR-ingar voru hinsvegar fljótir að svara fyrir sig og breyttu stöðunni í 5 – 4 með mörkum frá Svavari Steinsen og Robbie Sigurdson en mörkin gerðu þeir á eins og hálfrar mínútu kafla. Rétt eftir miðja lotu misstu SR-ingar hinsvegar tvo leikmenn af velli og á innan við mínútu gerðu Bjarnarmenn tvö mörk. Fyrra markið átti Richard Tahtinen en það síðara Úlfar Jón Andrésson. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi en tveimur sekúndum fyrir leikslok gulltryggði Gunnar Guðmundsson sigur Bjarnarmanna.
Mörk/stoðsendingar SR:
Robbie Sigurdsson 2/0
Egill Þormóðsson 1/0
Svavar Steinsen 1/0
Steinar Páll Veigarsson 1/0
Björn Róbert Sigurðarson 0/3
Snorri Sigurbjörnsson 0/1
Arnþór Bjarnason 0/1
Refsingar SR: 14 mínútur.
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Sergei Zak 2/1
Gunnar Guðmundsson 1/1
Einar Sveinn Guðnason 1/1
Úlfar Jón Andrésson 1/1
Brynjar Bergmann 1/0
Richard Tahtinen 1/0
Ólafur Hrafn Björnsson 0/2
Falur Birkir Guðnason 0/1
Birkir Árnason 0/1
Róbert Freyr Pálsson 0/1
Hjörtur Geir Björnsson 0/1
Refsingar Björninn: 12 mínútur
HH