Liðið er í ágætu standi eftir átök síðustu daga, eitthvað er um eymsli og áverka hér og þar og kvefpest hefur verið að hrjá nokkra liðsmenn en keppst er við að bæta líðan með öllum þekktum meðferðum. Einkennandi hjá þessu liði er jákvæðnin og þessi rosalegi baráttuandi og samheldni, þær eru allar sem ein kona.
Í dag miðvikudag er frídagur, ekki alveg frí því dagurinn er þaulskipulagður frá morgni til kvölds eins og allir aðrir dagar í þessari ferð enda lítill tími gefist til pistlaskrifa (komnar eru samt myndir hér sem segja meira en mörg orð). Dagurinn í dag hefst á morgunverði síðan æfingu og myndatöku liðsins. Þá er farið aftur á hótel í hádegismat og kl. 13.00 verður farið í skoðunarferð að sjá konungshöll og hof. Í kvöld eru öll liðin svo boðin í sameiginlegan kóreanskan kvöldverð með danssýningu á eftir. Það verður gaman og áhugavert að sjá meira af þessari 12 milljón manna borg og fá innsýn inn í sögu og menningu Kóreu.
Það hefur verið hugsað vel um okkur hér, heimamenn eru að vanda sig. Þetta mót er fyrsta alþjóðlega stórmótið sem þeir halda eftir að hafa verið úthlutað að halda ólympíuleikana árið 2018 og þeir eru að æfa sig og sýna hvað þeir geta gert þetta vel. Við njótum góðs af þessu t.d. hafa ýmsir framámenn verið að koma á heimaleikina, s.s. formaður og meðlimir kóreönsku ólympíunefndarinnar auk yfirstjórnar kóreanska íshokkísambandsins. Á lokaleikinn á föstudag er síðan von á formanni og framkvæmdastjóra IIHF (alþjóða íshokkísambandsins) en formaðurinn Réne Fasel er einnig í alþjóða ólympíunefndinni.