Sigur gegn Tyrkjum

Í gaer fór fram annar leikur íslenska U20 ára landsliðsins hér í Litháen.  Að þessu sinni voru mótherjarnir hinir fornu fjendur Tyrkir.  Íslenska liðið fór að af stað af miklum krafti og kafsigldi það tyrkneska strax á upphafsmínútum leiksins og það heyrði til algerra undantekninga að andstæðingarnir kæmust út úr sínu varnarsvæði.
 
Liðið skoraði mörk í öllum regnbogans litum og alls urðu mörkin 7 talsins í fyrstu lotu án þess að Tyrkir næðu að svara fyrir sig.  Okkar menn mættu heldur afslappaðir til leiks í næsta leikhluta og Tyrkir skoruðu sitt fyrsta og eina mark í leiknum á 4. mínútu lotunnar eftir slæm mistök okkar manna í sókn sem urðu til þess að einn Tyrkinn slapp einn í gegn og skoraði á ískaldan markmanninn okkar.  Sæmundur Leifsson stóð í markinu allan tíman og varði örugglega hin 10 skotin sem á markið fóru.
 
Íslendingar áttu í mesta basli með að ná upp samspili og einstaklingsframtakið var allsráðandi og skilað aðeins tveimur mörkum í allri lotunni.  Staðan því orðin 9 – 1 þegar 3. og síðasta lota hófst. 
 
Leikmennirnir tóku sig saman í andlitinu í leikhléi og mættu ákveðnir til leiks og bættu við 7 mörkum í síðustu lotunni og lokastaðan því 16 – 1.  Um miðja 3. lotu var Daníel Eriksson sendur í sturtu fyrir tæklingu sem var hörð en að okkar mati alveg fullkomlega lögleg.  Emil Alengard var síðan í lok leik valinn maður leiksins.
 
Íslendingar skutu alls 54 skotum á mark Tyrkja á meðan Tyrkjar áttu 11 á okkar mark.
 
Leikur liðins var mjög sannfærandi ef undan er skilinn hluti 2. lotu og óhætt er að fullyrða liðið sé mjög sterkt.  Því miður virðast það aðeins vera Litháar sem séu verðugir andstæðingar okkar og að öllum líkindum verður sú viðureign leikurinn um gullið.  Það verður síðasti leikur mótsins og nú þegar er uppselt í öll sætin í höllinni í Elekrenai þar sem leikurinn mun fara fram.
 
Fyrirfram er búist við mjög jafnri viðureign og ljóst að hvert stig og hvert mark skiptir máli, því ef liðin skilja jöfn í úrslitaviðureigninni þá mun markahlutfall ráða.
 
Mörk og stoðsendingar
 
Emil Alengard 5/2, Birkir Árnason 2/4, Gauti Þormóðsson 2/2, Daníel Eriksson 1/3, Úlfar Andrésson 2/2, Jón Ingi Hallgrímsson1/2, Arnþór Bjarnason1/2, Gunnar Guðmundsson 1/1, Þorsteinn Björnsson 1/0, Steinar Veigarsson 0/1, Sigurður Árnason 0/1, Elmar Magnússon 0/1, Kári Valsson 0/1