Fyrir leikinn í dag var búist við nokkuð jöfnum og spennandi leik þar sem Serbía tapaði fyrir Rúmeníu fyrsta daginn með aðeins einu marki. Ísland hafði spilað við Rúmena í fyrradag og endaði sá leikur með eins marks sigri Rúmena. Þannig að fyrirfram mátti búast við spennandi viðureign á milli þessara liða.
Okkar strákar áttu í nokkrum erfiðleikum í leik sínum gegn Serbíu í dag. Vörn Serba var þétt og skot okkar stráka ekki að ná í gegn. Einnig voru okkar strákar heldur mikið í refsiboxinu, sér í lagi í þriðju lotu þar sem við vorum manni færri, stundum tveim færri, meirihluta lotunnar.
Nokkuð jafnræði var á milli liðanna í fyrstu lotu en Serbar voru nokkuð sterkari og náðu að skora tvö mörk, eitt um miðbik lotunnar og annað rétt í endann þegar 4 mínútur voru eftir af lotunni.
Við missum, í upphafi annarar lotu, tvo leikmenn með tíu mínútna millibili sem serbar ná að nýta sér þegar þeir skoruðu sitt þriðja mark. Nokkru síðar kom vonarglæta þegar Arnar Helgi Kristjánsson skoraði (með aðstoð frá Gunnlaugi Þorsteinssyni og Hauki Karvelssyni) við mikið harðfylgi fyrsta mark Íslands í leiknum þegar Serbar voru manni færri. Rétt um einni og hálfri mínútu síðar ná Serbar að svara og juku enn á muninn og svo aftur þegar fjórar sekúndur lifðu af annari lotunni. Staðan orðin 5 - 1 og brekkan orðin brött fyrir okkar stráka.
Ekkert var skorað í þriðju og síðustu lotunni en heldur var meira af refsimínútum á bæði lið. Lokatölur því 5 - 1 sigur fyrir Serbíu.
Á morgun mætum við Belgíu kl.15:00 að íslenskum tíma og hægt verður að horfa á leikinn í beinni á Youtube.