Samstarf við danska íshokkísambandið

Dómaraskiptakerfi sem kynnt var hér á síðunni í haust er nú að verða að veruleika. ÍHÍ hefur að undanförnu unnið að því að efla og bæta íslensk dómaramál og stór þáttur í því er að fá hingað til lands erlenda leiðbeinendur til að halda námskeið, fá erlenda dómara í heimsókn og senda íslenska dómara erlendis til að afla sér frekari reynslu.


Í haust komu hingað til lands frá danska íshokkísambandinu Kim Petersen og Claus Fonnesbech Christensen og héldu námskeið bæði fyrir byrjendur sem og lengra komna. Kim og Claus eru reynslumiklir menn á þessu sviði og sjá meðal annars um þennan þátt fyrir danska sambandið, jafnframt sem þeir hafa starfað á vegum Alþjóða Íshokkísambandsins.


Dómaraskiptakerfi er hugmynd sem fyrst var viðruð við danska kollega okkar árið 2003 þegar Kim og Claus komu hingað til Ísland í fyrsta sinn til að aðstoða við dómaranámskeið en það var svo á síðasta vorþingi Alþjóða íshokkísambandsins sem endanlega var gengið frá þessu samkomulagið og ákveðið að láta til skarar skríða. Hugmyndin er sú að hingað komi dómarar einu sinni til þrisvar á keppnistímabilinu og dæmi leiki og haldi jafnvel stutt námskeið, en á móti fari svo íslenskir dómarar utan og dæmi í Danmörku og auki við reynslu sína og þekkingu, sem tvímælalaust yrði okkur mikil lyftistöng.


Nú hefur næsta skref verið stigið og nú síðar í mánuðnum mun koma hingað til lands danskur dómari og mun hann dæma fjóra leiki í þremur flokkum, og til þess að svo mætti verða voru gerðar ákveðnar tilfærslur í mótadagskránni. Leikirnir sem hann mun dæma eru eftirfarandi;

SA-Björninn í kvennaflokki föstudaginn 16. des
SA-Björninn í karlaflokki laugardaginn 17. des
Narfi-SR í karlaflokki laugardaginn 17. des
SA-SR í 2. flokki sunnudaginn 18. des


Dómarinn sem hér um ræðir heitir Jens Christian Fossaberg og er okkur Íslendingum ekki að öllu ókunnugur því hann hefur hingað komið í tvígang áður. Fyrst kom hann hingað í hina miklu úrslitarimmu á milli SA og Bjarnarins árið 2001 og síðan aftur nú síðasta vor í úrslitakeppni SR og SA.


Viðræður er hafnar við Danina um útrás okkar dómara og þó enn liggi ekki fyrir ákveðnar dagsetningar verður það væntanlega í janúar eða febrúar 2006.


Með kveðju frá dómaranefnd ÍHÍ
Sigurður Sigurðsson