Frá leik liðanna á laugardaginn Mynd: Elvar Freyr Pálsson
Þriðji leikur í úrslitakeppni meistaraflokks kvenna fór fram á laugardaginn en þar áttust við SA og Björninn. Leiknum lauk með sigri SA sem gerðu 6 mörk gegn 2 mörkum Bjarnarkvenna. Með sigrinum tryggðu SA-konur sér íslandsmeistaratitilinn 2012.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrstu lotu en það voru SA-konur sem gerðu fyrsta markið á fimmtu mínútu og var þar á ferðinni Diljá Sif Björgvinsdóttir en hún átti eftir að láta töluvert að sér kveða í leiknum. Bjarnarkonur náðu hinsvegar að jafna leikinn rúmlega mínútu fyrir leikhlé og staðan því 1 – 1 eftir fyrstu lotu. Mark Bjarnarkvenna gerði Flosrún Vaka Jóhannesdóttir.
Í annarri lotu jókst sóknarþungi SA-kvenna til muna en það var fyrrnefnd Diljá sem kom þeim yfir fljótlega í lotunni og um miðja lotu bætti systir hennar Silvía Rán við marki og norðankonur komnar í vænlega 3 – 1 stöðu. Flosrún Vaka minnkaði hinsvegar muninn fyrir Bjarnarkonur skömmu síðar en það voru SA-konur sem áttu lokaorð lotunnar þegar Sarah Smiley skoraði rétt fyrir lotulok. Staðan því 4 – 2 eftir aðra lotu SA-konum í vil.
Leikurinn jafnaðist svo nokkuð í 3ju lotu en það voru SA-konur sem gerðu mörkin sem bæði komu í byrjun lotunnar. Diljá Sif átti fyrra markið og fullkomnaði þar með þrennu sína en síðara markið átti Guðrún Blöndal.
Við óskum SA-konum að sjálfsögðu til hamingju með titilinn.
Mörk/stoðsendingar SA:
Diljá Sif Björgvinsdóttir 3/1
Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/2
Sarah Smiley 1/2
Guðrún Blöndal 1/0
Refsingar SA: 14 mínútur
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 2/0
Steinunn Sigurgeirsdóttir 0/2
Refsingar Björninn: 6 mínútur.