Það var frídagur í gær og var hann vel nýttur hér í sumarblíðunni á suðurhveli jarðar. Dagurinn byrjaði líkt og venjulega á morgunmat en síðan var haldið í göngutúr þar sem menn voru m.a. hvattir og nánast skyldaðir til að kaupa sér sólarvörn.
Það hefur komið í ljós að stór hluti liðsins er haldinn hinum athyglisverða sjúkdómi sólarfíkn, eða tanarexía. Í framhaldinu var svo farið á góða æfingu en ákveðið var að fara ekki heim á heimavist eftir æfingu heldur kíkja á ströndina. Svo heppilega vill til að rétt við skautahöllina er stór og falleg strönd og þangað var haldið.
Allur hópurinn skellti sér í sjóinn en þarna voru stórar og miklar öldur sem gaman var að glíma við. Márarnir í Nýja Sjálandi kalla hvíta manninn „Pakeha“ sem þýðir samkvæmt einhverra skilgreiningu hvítt svín eða langt svín, og það var ekki laust við að manni dytti þessi skilgreining í hug þegar maður sá þessa skjannahvítu skrokka skoppa um á ströndinni. Reyndar segja þeir að þetta viðurnefni hafi komið á hvíta manninn vegna þess hvernig þeir voru á bragðið, en ekki vegna þess hvernig þeir litu út.
Rúmur klukkutími þótti alveg nóg á ströndinni enda sumir teknir að roðna óþarflega á öxlunum og ekki viturlegt að sólbrenna daginn fyrir mikilvægan leik gegn heimamönnum. Um kvöldið fórum við svo og horfðum á leik á milli heimamanna og Búlgara en sá leikur varð jafnari en við höfðum reiknað með og heimamenn unnu nauman 3 – 1 sigur. Semsagt dagskráin í dag hnotskurn – matur, göngutúr, æfing, matur, ströndin, matur, blundur, horfa á hokkíleik, matur og sofa.... já lífið er ekki slæmt hér í landi andfætlinganna.