Í kvöld lauk 2. deild heimsmeistaramótsins í íshokkí með úrslitaleik á milli Íslands og Króatíu um 3. sætið. Vitað var fyrir að Króatía yrði erfiður andstæðingur og svo fór að gestirnir unnu með 5 mörkum gegn 1. Íslenska liðið átti strax undir högg að sækja í upphafi leiks en vörðust mjög vel og náðu að halda öflugum sóknum Króatanna í skefjun. Króatar skoruðu eitt mark í fyrstu lotu en skutu alls 24 sinnum á markið á meðan okkar menn náðu aðeins 3 skotum. Dennis stóð sig vel í markinu og bjargaði því að ekki fór verr í þessari miklu skothríð.
2. lota var áþekk þeirri fyrstu. Skotregnið hélt áfram, í þetta skiptið 22 á móti 8 og aftur tókst Króötum að setja eitt mark og því var staðan 2 - 0 fyrir þriðju og síðustu lotuna. Það var því í raun allt opið og aldrei að vita hvernig leikurinn hefði þróast hefði okkar mönnum tekist að setja eitt mark í upphafi lotunnar.
Það voru hins vegar Króatar sem héldu áfram að skora og bættu við tveimur mörkum áður en Matthías Máni Sigurðarson klóraði í bakkann eftir að hafa stolið pekkinum í íslenska varnarsvæðinu og komist einn í gegn á króatíska markmanninn. Króatar bættu svo við 5. markinu fyrir lok leiks, lokastaðan 5 - 1. Ósigur, en engu að síður bestu úrslit okkar gegn Króatíu ef það er einhver huggun harmi gegn. Í lok leiks var Dennis Hedström valinn besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum og Emil Alengard besti leikmaður liðsins á mótinu.
SSS