Ósigur gegn Spáni, Ísland 0 - Spánn 4.

Í kvöld mætti íslenska liðið því spænska í 4. leik liðsins á Heimsmeistaramótinu.  Væntingar stóðu til sigurs í kvöld en því miður gekk hvorki né rak og Spánn bar sigur úr býtum með 4 mörkum gegn engu.  Spænska liðið skoraði tvö mörk í fyrstu lotu, fyrra markið á 6. mínútu þegar jafnt var í liðum og seinna markið á 14. mínútu þegar einn íslensku leikmannanna var að taka út refsingu.

Íslenska liðið átti engu að síður nokkur góð færi en inn vildi pökkurinn ekki.  Róbert Pálsson átti m.a. þrumuskot frá bláu línunni í „power play“ en pökkurinn lenti í stönginni.  2. lotan var ekki góð lota hjá íslenka liðinu, spilið gekk illa og pökkurinn skoppaði um allan ís og rataði sjaldan á rétta staði.   Lítið var um að vera, aðeins tvær brottvísanir og eitt mark, en þetta eina mark skoruðu Spánverjar um miðbik lotunnar þegar bæði lið voru með menn í kælingu og spilað var 4 á 4.  Í sókninni slasaðist einn leikmaður Spánverja eftir að pökkurinn lenti í andliti hans og var hann fluttur á spítala.

Okkar menn komu sem öskrandi ljón inn í 3. lotu og virtust staðráðnir í að girða sig í brók og breyta gangverki leiksins.  Menn létu finna fyrir sér og átt nokkrar stórgóðar og hættulegar sóknir á fyrstu mínútum lotunnar en markvörðurinn spænski vann vel fyrir kaupi sínu og hirti alla pekki.  Rothöggið kom svo frá Spánverjum á 55. mínútu leiksins og aftur í „power play“.  Fleiri urðu mörkin ekki en að þessu sinni vantaði ekki skotin frá okkar mönnum, íslenska liðið skaut 23 sinnum á markið á móti 24 skotum frá þeim spænsku.  Það segir eitthvað um frammistöðu spænska markvarðarins enda kom það engum á óvart að í lok leiks var hann valinn maður leiksins.

Það verður því einhver bið á því að Ísland leggi Spán að velli en þess verður vonandi ekki langt að bíða.  Á morgun fara svo fram síðustu leikir mótsins og þá verður leikur okkar við Króatíu hreinn úrslitaleikur um bronsið.