Til formanns og stjórnar ÍHÍ
Hér fyrir neðan er ítarlegri rökstuðningur Aganefndar ÍHÍ samkvæmt beiðni stjórnarinnar.
F.h. Aganefndar
Árni Geir Jónsson (sign)
formaður
Reykjavík 28. október 2024
Málsatvik er leiða til þess að þessi rökstuðningur er skrifaður.
Aganefnd barst erindi frá stjórn ÍHÍ þar sem óskað var eftir að aganefnd rökstyddi með ítarlegri
hætti úrskurði sína yfir Birki Einissyni leikmanni númer 8 í liði SA sem birtur var 3. október 2024.
Úrskurði yfir leikmanni SR númer 20 Jonathan Otuoma og leikmanni SR númer 74 Daniel
Otuoma sem birtur var 6. október 2024.
Rökstuðningur númer 1 - úrskurður fyrir Birkir Einisson.
Málsgögn.
Þau málsgögn sem aganefnd byggir úrskurð sinn á eru Atvikaskýrsla aðaldómara leiks og
Atvikaskýrsla eftirlitsdómara leiksins. Erindi sem barst til stjórnar ÍHÍ og aganefndar dagsett 30.
september 2024, klukkan 12:21, frá netfangi Bjarna Helgasonar varaformanns SR en er kvittað
undir sem Stjórn íshokkídeildar SR. Erindi sem barst til stjórnar ÍHÍ og aganefndar dagsett 30.
september 2024, klukkan 20:30 undirritað af Elísabetu Ásgrímsdóttur formanni íshokkkídeildar
SA. Upptaka af streymi leiksins á youtube rás Íshokkísambandsins.
Sjónarmið sem koma til skoðunar við mat og ákvörðun.
Ástæða þess að aðaldómari ritar atvikaskýrslu um málið er að eftir að leik lauk óskaði fyrirliði SA
eftir því að fá að ræða við aðaldómara leiksins. Í kjölfarið óskaði síðan liðsstjóri SR sem
jafnframt er formaður íshokkídeildar félagsins einnig eftir að fá að ræða við aðaldómara leiksins.
Í máli þessara aðila komu fram tvær andstæðar lýsingar á þeim orðum sem féllu.
Í atvikaskýrslu aðaldómara er sjónarmið Skautafélags Reykjavíkur það að leikmaður SA númer
8 hafi látið falla rasísk ummæli um leikmann SR númer 20 sem hafði þá stuttu áður hafði fengið
á sig harða tæklingu þannig að leikurinn var stopp. Sjónarmið Skautafélags Akureyrar eru að
leikmaður SA númer 8 hafi ekki látið falla rasísk ummæli en mögulega óviðeigandi ummæli, þá
hafi leikmaður SR númer 16 snúið út úr orðum hans og með því gert þau rasísk.
Í bréfum eða greinargerðum félaganna sem hér eiga hlut að máli og bárust aganefnd 30.
september síðastliðinn koma fram algerlega andstæð sjónarmið félaganna sem endurspegla
þau sjónarmið sem eru reifuð hér að ofan. Því var ljóst að orð stóð gegn orði. Þar sem þetta
atvik er að gerast á meðan dómarar leiksins eru að vísa leikmanni SA sem átti tæklinguna á
leikmann SR númer 20 til búningsherbergja hinum megin á svellinu þar sem honum var vísað af
velli. Eru engin hlutlaus vitni af því sem þarna á að hafa gengið á. Enginn af embættismönnum
leiksins getur staðfest hvor frásögnin er rétt. Því var samhljómur innan nefndarinnar að ekki væri
unnt að skera úr um það.
Aganefnd var meðvituð að leikmaður SA númer 8 hafði orðið uppvís af því fyrir nokkrum árum
að viðhafa rasísk ummæli um andstæðing, þá viðurkenndi hann ummælin, baðst afsökunar og
tók út sinn dóm. Nefndin var sammála um að ummæli sem búið er að viðurkenna fyrir margt
löngu, biðjast formlega afsökunar á, og taka út refsingu fyrir geti ekki verið grundvöllur sektar
eða sakleysis í því máli sem nú er til umfjöllunar.
Aganefndin leitaði ráðgjafar vegna þeirrar stöðu að orð stæði á móti orði hjá KSÍ annarsvegar
og Danska íshokkísambandinu hinsvegar. Samhljómur var frá báðum þessum aðilum að
ásakanir um hegðun eða ummæli sem samrýmast ekki því regluverki sem unnið er eftir, þurfa að
vera studdar einum af embættismönnum leiksins, dómurum línumönnum eða eftirlitsmönnum til
þess að hægt sé að fullyrða um sekt viðkomandi.
Í erindi SA sem sent var stjórn og Aganefnd og líka í atvikaskýrslu dómara þar sem haft er eftir
fyrirliða liðsins, er hins vegar viðurkenning á því að leikmaðurinn hafi haft í frammi
óíþróttamannsleg ummæli sem nefndin hefur ekki lagt mat á efnislega. Óíþróttamannsleg
ummæli rata alla jafna ekki inn á borð aganefndar nema þau rati í atvikaskýrslur dómara líkt og
nú er.
Úrskurður:
Aganefndin telur óíþróttamannslega framkomu leikmannsins ámælisverða. Byggt á reglu 75 um
óíþróttamannslega hegðun (e. UNSPORTSMANLIKE CONDUCT). Birkir Einisson fær einn leik í
bann.
Rökstuðningur númer 2 - Úrskurður fyrir Jonathan og Daniel Outuma.
Málsgögn.
Þau málsgögn sem aganefnd byggir úrskurð sinn á eru Atvikaskýrsla aðaldómara leiks og
Atvikaskrýrsla eftirlitsdómara leiksins. Erindi sem barst til stjórnar ÍHÍ og aganefndar dagsett 30.
september 2024, klukkan 12:21, frá netfangi Bjarna Helgasonar varaformanns SR en er kvittað
undir sem Stjórn íshokkídeildar SR. Erindi sem barst til stjórnar ÍHÍ og aganefndar dagsett 30.
september 2024, klukkan 20:30 undirritað af Elísabetu Ásgrímsdóttur formanni íshokkkídeildar
SA. Uptaka af streymi leiksins á youtube rás Íshokkísambandsins.
Sjónarmið sem koma til skoðunar við mat og ákvörðun.
Atviksins er getið bæði í atvikaskýrslu aðaldómara leiksins og Eftirlitsdómara. Bræðurnir
Jonathan og Daníel ráðast að Birki Einissyni á gangi leikmanna sem liggur út í gegnum anddyri
Skautahallarinnar á Akureyri. Þetta gerist eftir að leik er lokið. Eftirlitsdómari leiksins verður vitni
að árásinni og er sá aðili sem nær að stöðva hana og vísar hann leikmanni SA til
búningsherbergja og leikmönnum SR út úr húsi.
Ljóst má vera að verknaðurinn var unnin af ásetningi. Eftir að tókst að koma þeim bræðrum út úr
húsi verður eftirlitsdómari vitni af áframhaldandi hótunum um líkamsmeiðingar og líflátshótunum
í garð þolanda eftir að út á bílaplan var komið.
Leitað var í fyrri dómum aganefndar að atburðum þar sem gerendur beittu sér, gagnvart öðrum
keppendum eða embættismönnum leiksins utan tímaramma leiksins sjálfs. Nærtækasta dæmið
og það sem er næst okkur í tíma og tíðaranda er atvik frá frá 21. nóvember 2018 þar sem
leikmaður og aðstoðarþjálfari liðs reynir að hóta dómara fyrir leik til að hafa áhrif á gang leiksins.
Þar er um að ræða andlegt ofbeldi gagnvart embættismanni leiksins. Sá úrskurður var 24
mánaða bann frá allri starfsemi sem fram fer á vegum ÍHÍ. Atvikin hafa ákveðin líkindi en eru
ekki að fullu samanburðarhæf.
Við umfjöllun um málið kemur fram það sjónarmið að gerendurnir eru fremur ungir og hafa ekki
verið reglulega á borðum aganefndar fyrir einhverskonar agabrot. Horft er til þess við ákvörðun
refsingar.
Við skoðun á upptöku af streymi leiksins sést glögglega að eftir að leik er lokið heilsa bræðurnir
Jonathan og Daniel, Birki Einissyni og þakka honum fyrir leikinn. Ljóst má vera að á því
augnabliki eru ekki hafðir frammi neinir þeir tilburðir sem geta skýrt það sem gerist eftir að
leikmenn yfirgefa svellið.
Aganefnd er einhuga um að það verði ekki liðið að einstaklingar eða hópar taki það upp hjá sér
að hefna fyrir eitthvað sem á að hafa gerst innan ramma leiksins. Nefndin er því samstíga í þeirri
skoðun að úrskurður í þessu máli verði að endurspegla alvarleika málsins.
Íshokkísamband Íslands og Alþjóða Íshokkísambandið hafa bæði ítrekað sent út frá sér
yfirlýsingar um að hreyfingin muni ekki að líða ofbeldi af neinu tagi og hefur aganefnd ÍHÍ haft
það einnig til hliðsjónar við ákvörðun refsingarinnar.
Þá var lagt mat á það hvort að hlutverk þeirra bræðra í þessari árás hefðu haft mismunandi
vægi. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að af þeim gögnum sem nefndin hafði til að meta málið
var það niðurstaðan að báðir áttu hlutdeild í verknaðnum. Annar meira með barsmíðum og hinn
meira með hótunum.
Nefndin var samstíga í niðurstöðu sinni og taldi að 90 daga brottvikning væri hæfileg. Þar sem
nefndin notar dagsetningar til að afmarka þyngri dóma ákvað nefndin að miða við 1. janúar 2025
sem eru 87 dagar frá úrskurði.
Úrskurður:Leikmenn SR númer 20 Jonathan Otuoma og númer 74 Daniel Otuoma fá báðir alsherjar bann
sem gildir til 1. janúar 2025.