Úr leik Bjarnarins og Jötna um liðna helgi. Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir
Leikir kvöldsins eru tveir að þessu sinni og báðir eru þeir í meistaraflokki karla. Annarsvegar er leikið í Egilshöllinni og hinsvegar í Skautahöllinni á Akureyri.
Í Egilshöllinni mætast lið Húna og Skautafélags Reykjavíkur og hefst leikurinn klukkan 19.30. Þetta er þriðji leikur liðanna á tímabilinu en í hinum tveimur fyrri hafa SR-ingar unnið nokkuð örugga sigra, þ.e. 3 - 10 og 10 - 2. SR-ingar ætla sjálfsagt að halda áfram á sömu braut á meðan Húnar vilja í það minnsta ná hagstæðari úrslitum hvað markatölu varðar.
Í Skautahöllinni á Akureyri mætast hinsvegar Víkingar og Jötnar og hefst sá leikur einnig klukkan 19.30. Þetta er annar leikur liðanna á tímabilinu en í þeim fyrsta hallaði töluvert á Jötna sem lágu fyrir Víkingum 16 - 0. Yngri leikmenn hafa verið að koma inn í Jötna í síðustu leikjum og á móti Birninum um síðustu helgi lék Marteinn Brynjarsson sinn fyrsta leik í meistaraflokki og Elmar Aðalheiðarson annan leik sinn í þeim flokki.
HH