Gengið hefur verið frá hvaða þjálfarar koma til með að þjálfa karlalandslið Íslands ásamt landsliði skipað leikmönnum 20 ára og yngri.
Dave MacIsacc hefur verið ráðinn sem þjálfari karlalandsliðs Íslands í íshokkí. Dave er fæddur árið 1972 og útskrifaðist frá Háskólanum í Main í íþróttafræðum með kennslu og þjálfun sem aðal greinar. Dave hefur margra ára reynslu við þjálfun og nú síðast þjálfaði hann Louisiana Ice Gators í SPHL deildinni (Southern Professional Hockey League). Árin 2004 og 2005 stjórnaði hann þróun starfs yngri flokka Philadelphia Flyers.
Á leikmannaferlinum lék hann sem fyrirliði Háskólans í Main og varð NCAA National Champion. Dave lék í átta ár í AHL deildinni og var fyrirliði meðal annars hjá Philadelphia Phantoms. Árið 2001 var hann valinn Player of the Year í AHL deildinni. Einnig hefur hann leikið í Rússlandi og á Ítalíu. Dave hóf að þjálfa hjá Birninum á síðastliðnu keppnistímabili og undir hans stjórn vann félagið íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki karla.
Hannu-Pekka Hyttinen hefur verið ráðinn þjálfari U20 ára landsliðs Íslands í íshokkí. Hannu-Pekka er 28 ára gamall og hefur mikla reynslu, bæði sem þjálfari og leikmaður í íshokkí. Sjálfur er hann fyrrum markmaður og hefur hann komið að íshokkíþjálfun á öllum stigum, allt frá þjálfun barna til atvinnumanna í sportinu. Undanfarin ár hefur hann stundað nám í Íþrótta og þjálfunarfræðum við íþróttaháskólann í Vierumäki í Finnlandi. Námið þar er innan IIHF Ice Hocky Centre of Excellence, sem er samvinnuverkefni Alþjóða íshokkísambandsins, finnska Íshokkísambandsins og Vierumäki háskólans og er sérhæft nám í íshokkíþjálfun.
Tilkynnt verður fljótlega hver mun taka að sér þjálfun kvennalandsliðs og landsliðs skipað leikmönnum 18 ára og yngri.
HH