Æfingahópur U20 drengja í íshokkí hefur undanfarið verið við æfingar fyrir heimsmeistaramót Alþjóðaíshokkísambandsins (IIHF) í annarri deild b. Æfingarnar hafa farið fram í Egilshöll og munu halda áfram í Skautahöllinni í Laugardal.
Mótið fer fram í Pionir skautahöllinni í Belgrad , Serbíu 12. - 17. september 2022.
Lokahópurinn verður tilkynntur um mánaðarmótin og fer landsliðið utan 9. september og kemur heim aftur 18. september.
Vladimir Kolek íþróttastjóri ÍHÍ er aðalþjálfari og Miloslav Racanský yfirþjálfari Skautafélags Reykjavíkur er aðstoðarþjálfari. Konráð Gylfason framkvæmdastjóri ÍHÍ er liðsstjóri, Ragnar Jóhannsson tækjastjóri og Bjarki Reyr Jóhannesson sjúkraþjálfari.
Þátttökuþjóðir auk Íslands eru Serbía, Holland, Króatía og Belgía en Kína dró sig úr keppni vegna heimsfaraldurs.
Þau lið sem munu verma 1. og 2. sæti riðilsins fara upp í aðra deild a og taka því þátt í heimsmeistaramóti IIHF 2023 í Litháen í desember 2022. Þau lið sem enda í 3. 4. og 5. sæti munu halda sæti sínu í annarri deild b og taka þátt í heimsmeistaramóti IIHF í janúar 2023.
Að venju má fylgjast með mótinu á heimasíðu IIHF og þar mun birtast linkur á streymisveitu sem sýnir alla leiki mótsins. Einnig er hægt að fylgjast með framvindu mótsins í appi IIHF. App Apple. App Android.