28.03.2008
Ótrúlegur fögnuður braust út meðal hópsins í gærkvöld þegar ljóst var að fyrsta sætið var öruggt. Að koma heim með gullið er óvænt ánægja og má segja að fjarlægur draumur hafi ræst. Stúlkurnar náðu þó að róa sig niður og hafa notið frídagsins í dag. Hluti hópsins fór að skoða kastala Dracúla greifa, aðrar fóru til Brasov að skoða í búðir og nokkrar slöppuðu af á hótelinu við bókalestur eða videogláp. Það er þó ekki möguleiki á að neinar hafi sést broslausar eina mínútu í dag. Þær eru þó alveg að hemja sig því þær eru ákveðnar að klára síðasta leikinn á sama hátt og leikina hingað til.
Eistneska liðið hefur verið mjög alvarlegt í dag, fór ekki í neina ferð og ætlar greinilega að sýna okkur hvað í þeim býr. Við göngum hins vegar einbeittar til leiks, ákveðnar að gefa ekkert eftir þó að titillinn sé ekki í hættu.
Nýju liðsmennirnir Margrét, Vala og Alissa voru busaðar í kvöldmatnum í kvöld og stóðust prófið með glans við mikinn fögnuð allra viðstaddra.
Þessi vika er búnn að vera fljót að líða, mikil vinna en mjög skemmtileg upplifun fyrir okkur allar. Eftir síðasta leikinn verðum við þó meira en tilbúnar að halda heim á leið og er við því að búast að glitti á eitthvað hangandi um hálsinn á okkur næstu vikurnar, daga sem nætur.