Ferðalagið

Stelpurnar mættu stundvíslega á flugvöllinn og vel gekk að tékka inn.  Við uppgötvuðum hins vegar að ein liðskonan hafði ekki fengið búninginn sinn afhentann og hann var á ÍHÍ skrifstofunni.  Elínborg tækjavörður var ekki mætt svo það var hringt í hana í snarhasti og lán í óláni þá hafði sprungið hjá henni og hún var bara komin í Hafnarfjörð.  Elskulegi Hallmundur okkar var ræstur út og eftir mikið stress gekk allt upp.  Fararstjórnin var því síðust um borð í flugvélina með þá trú að "Fall er fararheill"
Flugferðirnar báðar voru fínar, við veiddum 5 töskur af færibandinu í París og komum áfram í réttan farveg.  Létt var yfir liðinu við lendinguna í Búkarest og var tekin smá söngæfing, sem var enda nú bara smá sýnishorn miðað við það sem á eftir kom.  Eins og áður var komið fram þá vantaði 3 töskur á endastöð, þar af hokkítöskuna hennar Rósu. Viðeigandi skýrsla var gerð og haldið út í rútuna sem beið okkar og lagt af stað um kl.21.30 að staðartíma. Klukkunni var síðan flýtt um miðnættið og er  því 3ja tíma munur núna og á Íslandi.  Þar fengum við samlokur, banana og vatn og sett var á fín bíómynd og við höfðum það bara notalegt m.v. aðstæður.  Þegar henni var lokið skellti bílstjórinn á hressandi tónlist og við það fór hópurinn í ágætan partýfíling sem endaði með að bíðstjórinn var beðinn að lækka í tónlistinni og stelpurnar sungu af hjartans list í mikilli stemmingu og gleði.  Hópurinn var þó orðinn þreyttur og syfjaður þegar á hótelið var komið og gott var að skríða uppí.  Frjáls mæting var í morgunmat en nokkrar mættu og skriðu svo aftur uppí enda var ekki mæting á æfingu fyrr en kl.12.45. Í þessum skrifuðu orðum eru stelpurnar nýkomnar af ís og eru í rólegheitunum að koma sér fyrir og byggja upp stemninguna fyrir 1. leik mótsins sem fram fer á morgun klukkan 13.30 að staðartíma eða 10.30 á íslenskum. Bestu kveðjur frá Rúmeníu
Fararstjórar