Króatía 3. hluti

Oftast er leikjaniðurröðun á HM-mótum  þar sem sex lið taka þátt að leiknir eru tveir leikir og síðan tekinn frídagur. Svo eru aftur teknir tveir leikir og síðan frídagur og endað með einum leik. Að þessu sinni var niðurröðunin hinsvegar þannig að strax á eftir þriðja leik liðanna kom frídagur. Á frídegi eiga liðin rétt á klukkustundaræfingu og Olaf Eller ákvað að nýta þann tíma vel. Robin Hedström hafði átt við krankleika í baki að stríða og tók sér frí frá æfingu og heimsótti þess í stað nuddara sem hefur aðstöðu í höllinni. Þjálfarateymið nýtti hinsvegar æfinguna í að prufa nýjar uppstillingar og laga það sem þeim fannst hafa farið aflaga fram að þessu. Að æfingu lokinni var frjáls tími sem nýttur var til bæjarferðar eða annarra hluta.

Daginn eftir var komið að einni af stóru stundinn þegar leikið var við kínverska liðið. Á síðasta keppnistímabili vann íslenska liðið það kínverska með þremur mörkum gegn einu og tryggði sér bronsið í fyrsta sinni í 2. deildar keppni. Nú var mjög svo nauðsynlegt að endurtaka leikinn. Bæði þjálfarar og leikmenn höfðu fylgst með kínverjunum í fyrri leikjunum á mótinu. Flestir voru sammála um að liðið væri  betur skipulagt en þegar við lékum við þá í fyrra. Kínverska liðið státaði líka af nýjum þjálfara sem heitir
Yevgeni Levedev og kemur frá Hvíta-Rússlandi. Fylgst var með leiknum á mbl.is einsog fyrri leikjum og þrátt fyrir nokkuð jafnan leik þá var það betra liðið sem vann. Egill Þormóðsson var valinn maður leiksins í íslenska liðinu. Dennis Hedström, Úlfari Jón Andrésson og Andri Már Mikaelsson tjáðu sig um leikinn við mbl.is.

Það var brosandi lið sem hélt upp á hótel að leik loknum, enda góður dagur að baki. Kristján tækjastjóri, og allt hitt sem hann er, var mættur með myndavélina.

Mynd: Kristján Maack

HH