09.03.2007
Það er óhætt að segja það að leikurinn í gærkveldi gegn Kína hafi verið vonbrigði. Við unnum tvær lotur en töpuðum einni heldur stórt.
Kínverjar byrjuðu leikinn af miklum krafti og virtust koma miklu ákveðnari til leiks en íslenska liðið. Kínverjarnir létu okkar menn strax finna fyrir því með því klára allar tæklingar og við það slokknaði aðeins á okkar mönnum. Sem dæmi var Kolbeinn Sveinbjarnarson tæklaður á opnum ís sem olli því að hann fór í heilt heljastökk á ísnum en slíkar tæklingar hafði maður hingað til aðeins séð í sjónvarpi. Kolbeinn fann þó lítið fyrir þessu og hélt ótrauður áfram.
Fyrsta mark lotunnar kom ekki fyrr en á 11. mínútu en þá brustu flóðgáttir alls urðu mörkin 5 fyrir lok lotunnar án þess að við næðum að svara fyrir okkur. Sum voru mörkin heldur klaufaleg. Fyrsta markið kom eftir slæma innáskiptingu en þá komust þeir kínversku einir í gegn þegar allt okkar lið var á bekknum að taka skiptingu. Annað markið kom svo þegar við vorum aðeins með fjóra menn á ísnum þegar þeir áttu að vera fimm vegna annarra mistaka í skiptingu. Svona hélt þetta áfram og Kínverjar léku á alls oddi á meðan hvorki gekk né rak hjá okkur.
Eftir fyrsta leikhlé tóku menn sig saman í andlitinu og í 2. lotu var allt annað að sjá til liðsins. Mattías Sigurðsson skoraði fyrsta mark Íslands í leiknum í power play eftir sendingu frá Agli Þormóðssyni á 7. mínútu lotunnar, en þetta var einnig fyrsta skot liðsins á mark í lotunni. Fleiri urðu mörkin ekki í lotunni og staðan því orðin 5 – 1.
Á 13. mínútu 3. lotu var Egill aftur á ferðinni og skoraði óstuddur með langskoti eftir gott upphlaup. Fimm mínútum síðar skoraði svo Pétur Maack eftir sendingu frá Agli og bætti þar með við þriðja markinu. Pétur og Egill hafa sýnt að þeir eru eitt hættulegasta sóknarparið á mótinu og þegar þeir eru inná er stöðug ógn að marki andstæðinganna og Mattías Sigurðsson kemur sterkur inn á milli þeirra í centerstöðuna. Kínverjum tókst að skora eitt mark í lotunni, lokastaðan því 6 – 3.
Það er grátlegt að tapa leik á 10 mínútna kafla í 1. lotu en þannig var það í þetta sinn. Strákarnir fóru ekki inní leikinn með nógu mikið sjálfstraust, en þeim óx ásmegin er líða tók á leikinn og sýndu hvað í þeim býr. Það verður þó ekki af Kínverjunum tekið að þeir eru með gott lið, þeir eru hraðir og skipulagðir og oft léku þeir vörn okkar grátt en Aron Stefánsson markvörður átti góðan leik eftir óheppilega byrjun og varði oft meistaralega.
Í lok leiks var Orri Blöndal valinn besti leikmaður íslenska liðsins en hann var stöðugur í vörninni lét finna vel fyrir sér.
Í dag mætir Íslenska liðið svo Ný-Sjálendingum kl. 16:30 að staðartíma eða 08:30 að íslenskum tíma.
Mörk / stoðsendingar
Egill Þormóðsson 1/2, Mattías Sigurðsson 1/0, Pétur Maack 1/0
Brottvísanir Ísland: 12 mín
Brottvísanir Kína: 44 mín
Myndina tók Kristján Maack